Innlent

Ferðaþjónustubóndi í Flóanum krefst þess að kjötmjölsverksmiðju verði lokað

Magnús Hlynur Hreiðarsson skrifar
Ferðaþjónustubóndi í Flóanum hefur fengið sig fullsaddan af óþrifnaði og mengun frá kjötmjölsverksmiðju í sveitinni og krefst þess að henni verði lokað strax. Formaður stjórnar verksmiðjunnar harmar málið og segir unni að því að lagfæra hlutina.

Kjötmjölsverksmiðjan er staðsett rétt við Suðurlandsveg í Flóahreppi, rekin af Sorpstöð Suðurlands og sláturleyfishöfum á Suðurlandi. Í henni fer fram endurvinnsla á sláturúrgangi, um fimm þúsund tonn á ári.

Bærinn Lambastaðir er nálægt verksmiðjunni en þar er rekin ferðaþjónusta. Ábúendurnir hafa barist lengi gegn verksmiðjunni vegna mengunar og sóðaskaps en en ekki haft erindi sem erfiði.



Ekki verið gripið til aðgerða

Almar Sigurðsson, ferðaþjónustubóndi, hefur í gegnum árin tekið fjölmargar ljósmyndir og vídeómyndbönd í kringum verksmiðjuna. Hann segir að öllum virðist standa á sama um þann óþrifnað og mengun sem frá verksmiðjunni stafar.

Margoft hafi hann rætt við Heilbrigðiseftirlit Suðurlands, sveitarstjórn Flóahrepps og Umhverfisstofnun, en ekkert gerist. Hann telur að verkefnið sé þess eðlis að Heilbrigðiseftirlit ráði ekki við það.

„Ég held að það sé ekkert annað í stöðunni en að loka þessu apparati,“ bætir Almar við. 

Harmar umgengnina og lofar bót og betrun

Orkugerðin ehf. rekur verksmiðjuna en þar er Guðmundur Tryggvi Ólafsson formaður stjórnar.  Hann harmar umgengnina í kringum stöðina, segir hann ekki eiga að vera svona, hlutirnir eigi einfaldlega að vera í lagi. Nú þegar hafi verið brugðist við frárennslismálunum og þá verður gufuketill verksmiðjunnar lagaður í næstu viku þannig að svarti reykurinn hverfi.

Guðmundur segir verksmiðjuna gegn mikilvægu hlutverki á sviði umhverfismála, annars yrði sláturúrganginum urðað og því ekki hægt að nota afurðina sem áburð við uppgræðslu. Þá segist hann leggja mikla áherslu á að verksmiðjan sé rekin í sátt við heimamenn og nærumhverfið.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×