Innlent

Ferðasjúki barþjónninn áfram í varðhaldi vegna meintra auðgunarbrota

Bjarki Ármannsson skrifar
Rúm átta ár eru síðan Fokin hlaut fjögurra mánaða fangelsisdóm fyrir að hafa svikið tæpa milljón út úr Icelandair.
Rúm átta ár eru síðan Fokin hlaut fjögurra mánaða fangelsisdóm fyrir að hafa svikið tæpa milljón út úr Icelandair. Vísir/GVA
Konstantin Deniss Fokin, sem Héraðsdómur Reykjaness dæmdi fyrir helgi í sex mánaða fangelsi fyrir fjársvik, var í dag dæmdur til að sæta gæsluvarðhaldi til 4. febrúar í öðru sakamáli sem snýr að áþekkum fjársvikabrotum sem og meintum auðgunarbrotum. Hæstiréttur staðfesti þar með dóm Héraðsdóms Reykjaness frá því 7. janúar.

Hálfs árs dómur fyrir farmiðasvik

Fokin er eistneskur ríkisborgari sem áður hefur hlotið dóma hér á landi, í heimalandi sínu og í öðrum Evrópuríkjum. Rúm átta ár eru síðan Fokin, sem nefndur var „ferðasjúki barþjónninn“ í umfjöllun Vísis árið 2007, hlaut fjögurra mánaða fangelsisdóm fyrir að hafa svikið tæpa milljón út úr Icelandair. Bókaði hann flugmiða á netinu með stolnum greiðslukortanúmerum sem hann komst yfir við störf á bar í London.

Dómurinn sem kveðinn var upp yfir Fokin fyrir helgi féll í máli þar sem honum var gert að sök að hafa svikið út fleiri farmiða í flug á vegum Icelandair.Vísir/Valli
Dómurinn sem kveðinn var upp yfir Fokin fyrir helgi, og fjallað var um fyrr í dag, féll í máli þar sem honum var gert að sök að hafa svikið út fleiri farmiða í flug á vegum Icelandair. Honum er hins vegar nú gert að sæta áframhaldandi gæsluvarðhaldi vegna rannsóknar sem tengist meðal annars verðmætum munum sem fundust í híbýlum hans á meðan hann sætti farbanni vegna rannsóknar fjársvikamálsins.

Útivistarfatnaður fyrir um eina milljón fannst í híbýlum Fokin

Vísir fjallaði um málið fyrir áramót
. Fokin var handtekinn þann 2. nóvember stuttu eftir að hann reyndi að greiða fyrir enn einn farmiðann hjá Icelandair í reiðufé á söluskrifstofu í Flugstöð Leifs Eiríkssonar. Þá höfðu þegar verið gerðar 28 tilraunir til að greiða fyrir miðann, í nafni móður Fokins, með nítján greiðslukortanúmerum manna víða um heim.

Allar bókanirnar voru framkvæmdar á þráðlausu neti gistiheimilis í Reykjavík þar sem Fokin dvaldist í farbanni sínu og starfaði sem næturvörður í sjálfboðavinnu.  Við leit í vistarverum hans og móður, sem komin var til landsins, fundust fjölmörg handskrifuð kortanúmer, þar á meðal úr bókunum gesta á gistiheimlinu, og hins vegar mikið magn af dýrum útivistarfatnaði úr íslenskum verslunum. Andvirði þeirra mun vera um ein milljón króna.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×