Innlent

Ferðamenn í sjálfheldu

Gissur Sigurðsson skrifar
Björgunarsveitarmenn hafa haft í nógu að snúast við að koma ferðamönnum til bjargar.
Björgunarsveitarmenn hafa haft í nógu að snúast við að koma ferðamönnum til bjargar.
Erlendur ferðamaður lenti í sjálfheldu á lítilli syllu í Ólafsfjarðarmúla, norðan við gangamunnann, í gærkvöldi og kallaði samferðamaður hans eftir aðstoð.

Björgunarsveitarmenn frá Dalvík fóru til aðsotðar, en þegar til kom höfðu þeir ekki búnað til að síga niður til mannsins og var þá óskað eftir sérhæfðum fjallabjörgunarmönnum frá Akureyri, sem mættu á svæðið með mikinn búnað og náðu manninum. Hann var ómeiddur, en var orðinn nokkuð kaldur.

Þá var björgunarsveit á Vopnafirði kölluð út í gærkvöldi til að aðstoða mann, sem sat í föstum bíl sínum úti í miðri Selá. Hann reyndist hafa ekið rangt í vaðið á móts við Mælifell þannig að vatn flæddi inn í bílinn, sem drap á sér. Ekkert amaði að ökumanni og farþega hans þegar björgunarmenn komu á vettvang og dróu bílinn upp.

Og enn einn ferðamaðurinn í sjálfheldu var svo göngukona í hlíðum Ingólfsfjalls í gærkvöldi, en hún hringdi eftir aðstoð. Það tók björgunarsveitarmenn nokkurn tíma að finna út hvar í fjallinu hún væri, því hún átti í erfiðleikum með að átta sig á staðháttum. Loks gaf bíll konunnar, sem stóð við fjallsræturnar, vísbendingu um hvar hún gæti verið og fannst hún heil á húfi.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×