Innlent

Ferðamenn hættu sér út á ótryggan ís á Jökulsárlóni

Birgir Olgeirsson skrifar
Fjórir voru á ísnum þegar lögregla kom á staðinn og komust þeir heilir á höldnu á land þar sem þeir voru teknir tali.
Fjórir voru á ísnum þegar lögregla kom á staðinn og komust þeir heilir á höldnu á land þar sem þeir voru teknir tali. Vísir/Lögreglan á Suðurlandi
Hópur ferðamanna hætti sér út á ótryggan ís á Jökulsárlóni í gær. Þetta kemur fram á Facebook-síðu lögreglunnar á Suðurlandi en þar segir að um 15 til 20 manns hafi farið út á lónið að sögn sjónarvotta en flestir voru komnir á fast land þegar lögreglu bar að.

Fjórir voru á ísnum þegar lögregla kom á staðinn og komust þeir heilir á höldnu á land þar sem þeir voru teknir tali.

Lögreglan segir aðstæður á Jökulsárlóni í gær hafa verið þannig að íshröngl og smájakar höfðu safnast sunnarlega á lóninu í norðanvindinum síðustu daga, til móts við þjónustubyggingu og bifreiðastæði. Kröftugt innfall var inn í lónið og talsverð hreyfing á ísnum sökum þess. Var ísinn því mjög ótryggur að sögn lögreglu og opnar vakir á milli. Telur lögreglan að það hefði geta reynst erfitt um vik með björgun ef einhver hefði farið ofan í lónið.

Lögregla beinir því til fólks virða merkingar við Jökulsárlón um að ekki sé óhætt að fara út á ísinn og fara að öllu með gát. Eins að láta ekki afskiptalaust ef sést til fólks að fikra sig út á ísinn, heldur láta vita svo hægt sé að grípa inn í og afstýra slysum.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×