Viðskipti innlent

Ferðamenn eyddu tveimur milljörðum í skoðunarferðir

ingvar haraldsson skrifar
Greiðslukortavelta erlendra ferðamanna hér á landi var alls 7,2 milljarðar króna í janúar sem er 32,5 prósent hærri upphæð en í sama mánuði í fyrra.
Greiðslukortavelta erlendra ferðamanna hér á landi var alls 7,2 milljarðar króna í janúar sem er 32,5 prósent hærri upphæð en í sama mánuði í fyrra. vísir/stefán
Erlendir ferðamenn greiddu 2 milljarða króna fyrir skipulagðar skoðunarferðir með greiðslukortum hér á landi í janúar. Kortaveltan í þessum geira jókst um 71 prósent frá janúar í fyrra. Þetta kemur fram í gögnum sem Rannsóknarsetri verslunarinnar.

Greiðslukortavelta erlendra ferðamanna hér á landi var alls 7,2 milljarðar króna í janúar sem er 32,5 prósent hærri upphæð en í sama mánuði í fyrra. Kortavelta bílaleiga jókst um 50 prósent milli ára og yfir þriðjungsaukning var í veltu hótela- og gistihúsa. Þá naut menningarstarfsemi, eins og söfn og viðburðir, góðs af aukinzni kortaveltu útlendinga þar sem aukningin nam næstum 30 prósent frá janúar í fyrra. Þá jókst erlend kortavelta í verslunum um næstum 20 prósent frá janúar í fyrra. Stærstur hluti erlendrar kortaveltu í verslunum var í tollfrjálsri verslun eða sem nam 130 milljónum og jókst um fjórðung frá því í fyrra.


Litlar breytingar í vetrarferðamennsku Íslendinga

Ekki varð sambærileg aukning í kortaveltu íslenskra ferðamanna  samkvæmt upplýsingum frá Rannsóknarsetrinu. Mældir eru þrír útgjaldaliðir íslenskrar kortaveltu, þ.e. vegna gistinga, flugferða og ýmissar ferðaþjónustu eins og skoðunarferða. Heildarveltuaukningin í janúar í þessum útgjaldaflokkum á milli ára er alls 5,3 prósent. Ef borin er saman velta íslenskra ferðamanna og erlendra á gistihúsum í janúar síðastliðnum kemur í ljós að innlend kortavelta í þessum flokki er aðeins um 9 prósent af erlendu veltunni.

Ferðamenn frá Noregi greiða hæstu meðalupphæðina með greiðslukortum.vísir/rannsóknarsetur verslunarinnar
Ferðamenn frá Noregi og Sviss eyða mestu

Ferðamenn frá Noregi keyptu að jafnaði fyrir hæstu upphæðir með greiðslukortum eða 217 þúsund krónur. Hluti kortaeigenda gæti þó verið Íslendingar sem eru búsettir í Noregi og noti þarlend greiðslukort. Svisslendingar greiða næst mest með greiðslukortum eða 211 þúsund krónur að meðaltali.

Meðalvelta erlendra ferðamanna var 115 þúsund krónur í janúar og dróst saman um 1,5 prósent milli ára. Greiðslukortavelta á hvern erlendan ferðamann hefur dregist saman um 10,8 prósent frá janúar 2013. Aukin útgjöld gegnum erlendar bókunarsíður eða styttri dvöl hér á landi gæti skýrt breytingarnar að mati Rannsóknarsetursins.







Fleiri fréttir

Sjá meira


×