Skoðun

Ferðamenn eiga að borga

Eva Baldursdóttir skrifar
Fjöldi erlendra ferðamanna hefur þrefaldast síðustu fimm ár. Um 1.5 milljón ferðamanna koma til landsins í ár samkvæmt spám en í fyrra komu tæplega 1.3 milljón. Íbúafjöldi yfir háannatíma vel tvöfaldast á Ísland sem þýðir að aukið álag er á alla innviði, svo sem vegakerfið, náttúruna, ferðamannasvæði, sundlaugar og jafnvel heilbrigðiskerfið ef því er að skipta. Við skattgreiðendur borgum fyrir þessa innviði og rekstur. Aukin neysla vegna ferðamannafjöldans skilar þó auknum tekjum í formi virðisaukaskatts í ríkissjóð, eðlilega enda eykst neyslan sem nemur fjöldanum, en milli ára var 12 milljarða aukning á tekjunum eða yfir 20% á tveimur árum.

Sveitarfélögin snuðuð

Eina gjalddtakan á ferðamenn er nú á grundvelli laga um gistináttaskatt en 100 kr. eru teknar per nótt á hótelherbergi. Það er mjög lág tala í erlendum samanburði og skilaði einungis um 905 milljónum í ríkissjóð á árunum 2012-2015. Í flestum löndum er rukkað ákveðið gistináttagjald, sem ýmist rennur til ríkissjóð eða sveitarfélags. Samkvæmt úttekt www.turisti.is hefðu tekjurnar verið 2,3 milljarðar sl. 4 ár ef sambærilegt gjald væri lagt á og í París. Ef viðmiðið væri Róm þá hefðu tekjurnar orðið um 5,6 milljarðar síðustu 4 ár eða nærri því sex sinnum hærri tekjum en hér á landi. Ljóst er að ríkissjóður hefði geta innheimt a.m.k. 2 milljarða á þessu tímabili til viðbótar væri skatturinn 300 kr., en þá fjármuni hefði sannarlega mátt nýta t.d. til að bæta vegakerfi landsins. 

Sveitarfélög fá hins vegar ekki hluta af þessum auknu tekjum sem er æði undarlegt. Í fyrsta lagi fara sveitarfélögin að mestu með þá málaflokka sem á reynir t.d. eins og aukin þrif og viðhald innan bæjar- og borgarmarka, rekstur safna og sundlauga, hluta af vegakerfi og svo framvegis. Í öðru lagi má færa sterk rök fyrir því að sveitarfélögin séu best í stakk búin til að meta hvar uppbyggingar sé þörf á grundvelli nálægðarsjónarmiða. Sveitarfélögin, sem eiga mörg í vanda við rekstur vegna fjárskorts, eiga því að taka á sig þennan bita, á meðan ríkissjóður bólgnar út vegna neyslu ferðamanna. Og nýjasta útspil ríkisstjórnar er að hafa frekari tekjur af sveitarfélögum, vegna séreignarsparnaðar leiðarinnar þ.e. fyrsta fasteign. Er þetta byggðastefna ríkisstjórnarinnar?  

Getuleysi ráðherra

Ráðherra ferðamála hefur ekki skilað raunhæfri lausn við aukna gjaldtöku á ferðamenn til að standa undir uppbyggingu ferðamannastaða og tryggja sjálfbæra nýtingu náttúrunnar, þó hefur hann haft 3 ár til verksins. Eina haldbæra breytingin var að stofnað var til frekari ríkisútgjalda með nýrri stjórnstöð ferðamála, þó það kunni að vera gott fyrir heildaryfirsýn greinarinnar leysir það ekki gjaldtöku þáttinn, og náttúrupassanum var hafnað. Ekki er ljóst hvort ráðherrann hefur unnið að annarri útfærslu síðan þá þó eflaust sé einhver vinna í gangi. Lög um gistináttaskatt var þó komið á í tíð fyrri ríkisstjórnar. 

Nokkrar leiðir eru færar til að leysa þetta mál og ættu ekki að vera tæknilega flóknar. T.d. að veita sveitarfélögum eyrnamerktar fjárveitingar til uppbyggingar vegna aukinna tekna af vaski, breyta lögum um gistináttaskatt og hækka upp í t.d. 300-400 kr. eða gefa sveitarfélögum lagaheimild til að innheimta gistináttagjald. Ferðamenn eiga að borga fyrir afnot af náttúru, þjónustu og rekstri sem er niðurgreiddur af skattgreiðendum, rétt eins og við gerum í ferðalögum okkar erlendis. Taka þarf ákvörðun. Nóg er búið að skrifa og skoða. Algjört getuleysi í gjaldtöku er ekki boðlegt þegar gengið er á innviði landsins.

 




Skoðun

Skoðun

Saman gegn ríkisofbeldi

Vilhjálmur Yngvi Hjálmarsson,Örlygur Steinar Arnaldsson,Sigurhjörtur Pálmason,Simon Valentin Hirt,Kristbjörg Arna E. Þorvaldsdóttir,Ari Logn,Margrét Rut Eddudóttir skrifar

Sjá meira


×