Innlent

Ferðamannastaðir byggðir upp á Reykjanesi

Svavar Hávarðsson skrifar
Á meðal verkefna er uppbygging við Gunnuhver á Reykjanesi.
Á meðal verkefna er uppbygging við Gunnuhver á Reykjanesi. Fréttablaðið/GVA
Bláa lónið, HS Orka og Reykjanes UNESCO Global Geopark hafa gert með sér samkomulag vegna uppbyggingar ferðamannastaða á Reykjanesi. Bláa lónið og HS Orka munu leggja til samtals 20 milljónir króna á þremur árum til verkefnisins.

Reykjanes UNESCO Global Geopark mun nýta fjármagnið til framkvæmda við veg og bílastæði við Gunnuhver, bílastæði við Reykjanesvita og byggingu nýs áningarstaðar við Brimketil. Verkefnin hafa auk þess fengið stuðning úr Framkvæmdasjóði ferðamannastaða.

Fyrirtækin eru stofnaðilar að Reykjanes UNESCO Global Geopark og taka sem slík þátt í rekstri og uppbyggingu ferðamannastaða á Reykjanesi. Fyrirtækin vilja auka stuðning sinn við uppbyggingu ferðamannastaða á næstu þremur árum, enda segir í tilkynningu að það sé sameiginlegur hagur allra sem að verkefninu koma að stuðla að aukinni þekkingu á Reykjanesi og vekja áhuga á jarðfræðilegri sérstöðu þess í alþjóðlegu samhengi.

HS Orka mun einnig bæta aðgengi að og veita upplýsingar um gönguleiðir í Eldvörpum, samhliða framkvæmdum á því svæði.

Róbert Ragnarsson, formaður stjórnar Reykjanes UNESCO Global Geopark og bæjarstjóri í Grindavík, segir það vera einstakt að fyrirtæki komi með svo öflugum hætti að uppbyggingu innviða.

Hann segir að þetta sé ekki í fyrsta sinn sem fyrirtækin starfi saman að umhverfisverkefnum, en Bláa lónið og HS Orka ásamt Grindavíkurbæ kostuðu einnig gerð göngustígs sem liggur frá Grindavík. Þá lagði Bláa lónið 40 milljónir króna til uppbyggingar golfvallarins í Grindavík á móti 10 milljóna króna framlagi Grindavíkurbæjar.

Reykjanes UNESCO Global Geopark vinnur hönnun og útfærslu verkefnanna og framkvæmd og verkefnastjórn í samstarfi við viðkomandi sveitarfélög. 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×