Innlent

Fer fimmtugasta fjallahlaupið á áratug

Ingvar Haraldsson skrifar
Stefán á hlaupum á Reykjaheiði upp úr Ólafsfirði í ágúst 2014.
Stefán á hlaupum á Reykjaheiði upp úr Ólafsfirði í ágúst 2014. Mynd/Sævar Skaptason 
„Þetta er verkefni sem ég gaf mér í afmælisgjöf þegar ég varð fimmtugur,“ segir Stefán Gíslason, hlaupari og formaður verkefnisstjórnar rammaáætlunar. Hann hyggst í dag ná markmiði sem hann setti sér á 50 ára afmælinu með því að hlaupa sitt fimmtugasta fjallahlaup fyrir sextugt, 81 kílómetra leið úr Miðfirði yfir Arnarvatnsheiði og suður í Borgarfjörð. „Þegar ég varð fimmtugur fannst mér um tvo valkosti að ræða, hægfara afturför eða markvissa líkamsrækt og hægfara afturför,“ segir Stefán og hlær en hann verður sextugur í mars.

Stefán segir upplifunina allt aðra á hlaupum en á öðrum ferðalögum um landið. „Þetta sameinaði áhuga á landfræði og sögu og grúski, að kynna sér leiðir yfir heiðar sem menn fóru í gamla daga. Á mörgum þessum leiðum hafa einhvern tímann orðið slys og sumt af þessu tengist skáldverkum. Það var til dæmis mjög magnað að fara um heiðar fyrir norðan Ísafjarðardjúp sem tengjast sögum Jóns Kalman,“ segir hann.

„Maður kynnist fólki öðruvísi en í vinnunni. Maður er að takast á við eitthvað með þeim á einhverri auðn þar sem gilda allt önnur lögmál en á parkettinu,“ segir Stefán enda hafi hann kynnst fjölda fólks á leiðinni.

Stefán vinnur að bók um hlaupin sem sem hann vonast til að verði öðrum hvatning til að stunda útivist og jafnvel fara leiðirnar fimmtíu. „Þetta er allt saman þokkalega fært vel frísku fólki,“ segir hann. Leiðirnar eru allar lengri en níu kílómetrar og á milli tveggja byggðarlaga eða staða sem honum þykja áhugaverðir.

Eftir hlaupið mun Stefán hafa hlaupið þúsund kílómetra í hlaupunum fimmtíu. Brottför úr Miðfirði er klukkan fimm að morgni og gert er ráð fyrir að hlaupið taki ríflega þrettán klukkustundir á leiðinni en Stefán mun hlaupa í tíu manna hópi.

Hann segir flest hlaupin hafa gengið stórslysalaust fyrir sig. „Maður hefur náttúrulega lent í alls konar rugli. Maður er að fara flestar þessar leiða í fyrsta sinn og hefur lent í vægum villum, smá vandræðum og kannski einu sinni í sjálfheldu.“

Til stendur að halda veislu Stefáni til heiðurs í Húsafelli eftir hlaupið. „Svo held ég bara áfram að hlaupa,“ segir hlauparinn.

Fréttin birtist fyrst í Fréttablaðinu




Fleiri fréttir

Sjá meira


×