Lífið

Fer á skíði á stórafmælinu

Stefán Þór Hjartarson skrifar
Ásta Möller heldur upp á daginn í skíðabrekkunni.
Ásta Möller heldur upp á daginn í skíðabrekkunni. Vísir/Vilhelm
„Ég og fjölskyldan erum hér á leiðinni til Akureyrar, við ætlum að nota þessa daga í að fara á skíði. Við vonumst til að það verði gott veður svo við getum átt góðar stundir fram á sunnudaginn. Síðan á eiginmaðurinn líka sextugsafmæli eftir fjórar vikur og þá förum við á skíði til Ítalíu,“ segir Ásta Möller, afmælisbarn dagsins, en hún er sextug í dag og ætlar að halda upp á það norðan heiða í brekkum Hlíðarfjalls. Blaðamaður nær henni þar sem hún er á leiðinni yfir Öxnadalsheiðina og hún segir veðrið lofa ansi góðu.

Þú ert mikil skíðamanneskja, heyri ég.

„Ég stunda skíði en er nú enginn snillingur, ég kemst alveg ágætlega niður allar brekkur. Við höfum öll mikla ánægju af þessu og förum oft á skíði.“

Verður engin veisla í tilefni dagsins?

„Nei, ég eiginlega tók það út þegar ég varð fimmtug. Þegar ég varð fimmtug, þá var ég nýbúin í prófkjöri, og ég gerði heilmikið úr því. Ég hélt upp á það í félagsheimilinu á Seltjarnarnesi og bauð heljarmörgum til veislu, ég held að það hafi mætt fimmtán hundruð manns. Þarna voru pólitískir samherjar og mótherjar, maður missti sig alveg. Það var alveg svakalega skemmtilegt – það var dansað til fjögur um nóttina. Það var hljómsveit Fríkirkjunnar í Hafnarfirði sem hélt uppi fjörinu þarna.

Þetta var eftirminnilegasta afmælið mitt og alveg ótrúlega mikið fjör. Ég held að það hafi allir mætt sem ég bauð, þetta var auðvitað í byrjun árs, það er greinilega besti tíminn, þá er fólk ekki farið til útlanda og er komið heim eftir jólin, þannig að fólk tók bara tjúttið.“

Þannig að þú þarft eiginlega ekkert að halda upp á afmælið aftur?

„Nei, það var eiginlega mín niðurstaða, að ég hefði þarna gert þetta fyrir lífstíð.“

En ertu mikið afmælisbarn svona vanalega?

„Nei, ekkert sérstaklega, mér þykir gott að vera bara með fjölskyldunni. Við erum með börn og barnabörn sem verða með okkur núna fyrir norðan. Á milli stórafmæla er ég ekkert mikið að hafa fyrir þessu – býð yfirleitt stórfjölskyldunni bara í súpu á afmælisdaginn.“

Við óskum Ástu til hamingju með daginn og megi hún komast heil úr brekkunum.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×