Innlent

Fengu viðurkenningar fyrir æskulýðsstörf

Atli Ísleifsson skrifar
Viðurkenningarnar voru veittar á ráðstefnunni ,„Stefum saman til framtíðar - Íslenskar æskulýðsrannsóknir 2014“.
Viðurkenningarnar voru veittar á ráðstefnunni ,„Stefum saman til framtíðar - Íslenskar æskulýðsrannsóknir 2014“. Vísir/Æskulýðsráð ríkisins
Æskulýðsráð ríkisins veitti í dag þrjár viðurkenningar fyrir æskulýðsstarf árið 2014. Viðurkenningarnar voru veittar á ráðstefnunni ,,Stefum saman til framtíðar - Íslenskar æskulýðsrannsóknir 2014" sem haldin var í vikunni.

Gunnar Gunnarsson hlaut viðurkenningu í flokknum „Ungt fólk sem lagt hefur alúð við þátttöku sína í æskulýðsstarfi eða nýtt reynslu sína úr æskulýðsstarfi á öðrum sviðum þjóðlífsins.“ Í rökstuðningi kemur fram að Gunnar hafi komið víða við í margskonar félagsstarfi innan íþrótta- og æskulðýðshreyfingarinnar, tekið virkan þátt í æskulýðsstarfi á Austurlandi - í sinni heimabyggð, á landsvísu og í norðurlandasamstarfi. Auk þess hafi hann verið virkur í félagslífi á öllum skólastigum og gengt trúnaðarstörfum fyrir félagasamtök.

Í flokknum „Aðilar sem sinnt hafa nýsköpun eða þróun í æskulýðsstarfi“ hlýtur Hitt Húsið viðurkenningu fyrir Músíktilraunir. „Músíktilraunir hafa í gegnum árin átt ómetanlegan þátt í að stuðla að nýsköpun og þróun í  tónlistarlífi ungs fólks og verið einn aðalvettvangur fyrir ungt fólk á aldrinum 13 – 25 ára til að koma tónlist sinni á framfæri.  Músíktilraunir hafa í gegnum árin gefið ungu tónlistarfólki tækifæri til þess að sýna við bestu aðstæður ríkulega tónlistarmenningu ungmenna og ekki síður gefið samfélaginu góða mynd af jákvæðu og uppbyggilegu menningar- og æskulýðsstarfi. Margir af okkar fremstu tónlistarmönnum eiga Músiktilraunum frama sinn og velgegni að þakka.“

Ólafur Proppé hlaut viðurkenningu í flokknum „Starfsmenn eða sjálfboðaliðar í æskulýðsstarfi sem skilað hafa merku ævistarfi eða á annan hátt hafa skarað fram úr“.

Í rökstuðningnum segur að Ólafur hafi alla starfsævi unnið ötullega að æskulýðs-, uppeldis- og félagsmálum. „Hann á að baki farsælan feril við kennslu. Eftir að hafa lokið doktorsprófi í uppeldis- og menntunarfræði 1982 vann hann lengst af við Kennaraháskóla Íslands sem prófessor og síðustu níu árin sem rektor kennaraháskólans. Í störfum sínum við KHÍ vann Ólafur að stofnun Námsbrautar í tómstunda- og félagamálafræði árið 2001 og studdi vel við þróun námsins á fyrstu árum þess.

Fjölmörg félög hafa notið þeirrar gæfu að hafa Ólaf Proppé innan sinna vébanda. Til að mynda hefur hann starfað sem skáti frá unga aldri og unnið fjölmörg trúnaðar- og forystustörf fyrir skátahreyfinguna á undanförnum áratugum.  Þá hefur Ólavur einnig verið mjög virkur í störfum á vettvangi björgunarmála á Íslandi.

Það er auðlegð fyrir hverja þjóð hafa í sínum röðum eldhuga og félagsmálaforkólfa eins og Ólaf Proppé og heiður fyrir Æskulýðsráð að veita honum viðurkenningu fyrir farsælt ævistarf að æskulýðsmálum.“

Viðurkenningum Æskulýðsráðs er ætlað að vekja athygli á því sem er til fyrirmyndar í æskulýðsstarfi á Íslandi og vera hvatning til þróunar, nýsköpunar og þátttöku.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×