Innlent

Femínistar þurfi að taka gríni

Stefán Ó. Jónsson skrifar
Eiríkur Jónsson birti bréfið því honum þótt það hnitmiðað og skemmtilega orðað.
Eiríkur Jónsson birti bréfið því honum þótt það hnitmiðað og skemmtilega orðað. Vísir
Skortur á skopskyni í samfélaginu, sérstaklega hjá ungfemínistum, útskýrir „heiftúðugu“ viðbrögðin sem lesendabréfið um brjóstaskoru saksóknarans Kolbrúnar Benediktsdóttur vakti á samfélagsmiðlum í gær.

Um grín hafi verið að ræða sem lýsir ekki á nokkurn hátt skoðunum ritstjórans, Eiríks Jónssonar, á klæðaburði Kolbrúnar né annarra starfsmanna réttarins. Ef hann fengi einhverju ráðið væru lögmenn í gallabuxum og stuttermabol í réttarsalnum.

Þetta er meðal þess sem kom fram í spjalli Eiríks Jónssonar við stjórnendur Bítsins í morgun þar sem fjölmiðlafár gærdagsins var til umræðu.

Góður dagur á skrifstofunni

Eiríkur segir að viðbrögðin við lesendabréfinu, þar sem Kolbrún var gagnrýnd fyrir að láta sjást í brjóstaskoru við aðalmeðferð í Birnumálinu, hafi komið sér á óvart. Það hafi bara „allt orðið vitlaust“ og fyrir vikið hafi gærdagurinn verið „frábær“ á skrifstofu vefmiðilsins.

„Ef að dagurinn í dag verður eitthvað svipaður og dagurinn í gær þá verður að skrá eirikurjonsson.is í Kauphöllina,“ segir Eiríkur glettinn.

Hann segir, þrátt fyrir að slá þann varnagla að geta ekki verið fullkomlega viss um það, að lesendabréfið hafi verið brandari. Hann hafi ákveðið að birta það á síðu sinni því honum þótti það skemmtilega orðað, stutt og hnitmiðað. „Það lýsti vissu viðhorfi, eins og lesendabréf gera,“ segir Eiríkur og bætir við að hann sé þó „allt annarrar skoðunar“ og bréfið hafi ekki lýst sinni skoðun í þessum efnum.

Lesendabréfið sem hleypti öllu af stað.Skjáskot
„Ég vil endilega að saksóknarar og dómarar séu klæddir bara í gallabuxur og stuttermabol mín vegna,“ segir Eiríkur. Þess í stað séu þeir alltaf „í einhverjum skikkjum eins og þeir séu frændi Zorro eða eitthvað.“

Þrátt fyrir að hafa sjálfur ekki skrifað bréfið segir hann hafa orðið fyrir miklu aðkasti vegna birtingarinnar. Hann hafi fengið „holskeflu af dónaskap,“ ekki síst frá ungum femínistum - „sem eru búnir að finnast sannleikann en eiga eftir að komast að því seinna að sannleikurinn er ekki til. Hann bara sveiflast til eftir því hvernig tíðarandinn er,“ segir Eiríkur sem skrifar þetta á „eðlislæga þörf þeirra til að hafa rétt fyrir sér.“ Málið komi feminisma ekkert við.

Valsarar þurfa ekki að tryllast út í KR-inga

Hann segir að menn verði að geta haft mismunandi skoðanir án þess að allt fari í bál og brand. Það sé þó hins vegar erfitt þegar kemur kynbundnum viðhorfum, þá verði umræðan „vond“ og heiftúðug“ að sögn Eiríks.

„Þú getur alveg haldið með Val en þú verður ekkert brjálaður þegar þú hittir einhvern sem heldur með KR,“ segir Eiríkur.

Þrátt fyrir viðbrögðin segir Eiríkur að því sé þó ekki að neita að „margir“ séu sammála því sem þar kom fram, að ekki væri við hæfi að saksóknarar væru í flegnum bolum. Vísar hann til færslu hæstarréttarlögmannsins Sveins Andra Sveinssonar þar sem hann segir að dómvörður myndi fleygja lögmönnum út úr salnum ef þeir klæddu sig ekki með hefðbundnum hætti.

Hann ítrekar að hann hafi persónulega enga skoðun á klæðaburði Kolbrúnar, ekki frekar en klæðaburði annarra sem starfa við dómstóla landsins. „Mér er alveg sama hvernig þessi saksóknari er klæddur, mér er alveg sama hvernig fólk er klætt. Svo lengi sem það er hreint og kurteist.“

Spjall Eiríks við Bítið má heyra hér að neðan.


Tengdar fréttir

Brjóstaumfjöllun harðlega gagnrýnd

Það er náttúrulega hneyksli að það geti sést að konur séu með BRJÓST. Hvílíkur dónaskapur! Hvað er næst, berir ökklar?




Fleiri fréttir

Sjá meira


×