Erlent

Fellibylurinn fallinn frá

Bandaríski hnefaleikakappinn Rubin "Hurricane" Carter lést á heimili sínu í Toronto í Kanada í dag 76 ára að aldri.

Carter, sem alla tíð var kallaður Hurricane, eða Fellibylurinn, sat í 19 ár í fangelsi eftir að hann var dæmdur fyrir þrjú morð í New Jersey árið 1966.

Bob Dylan samdi um hann frægt lag, Hurricane og fjöldi bóka hafa verið skrifaðar um kappann og kvikmynd var gerð um hann. Kvikmyndin var gerð árið 1999 með Denzel Washington í aðalhlutverki.

Talið er að kynþáttafordómar hafi ráðið miklu um að Carter var dæmdur á sínum tíma en hann var svartur. Réttað var yfir honum á nýjan leik árið 1976 og var hann þá aftur fundinn sekur um morðin en hann var síðan látinn laus árið 1985.

Vinur hans og einn verjenda hans í réttarhöldunum segir að Fellibylurinn hafi látist í svefni á heimili sínu en hann hafði glímt við krabbamein í blöðruhálskirtli.

vísir/afp



Fleiri fréttir

Sjá meira


×