Innlent

Felldu nálgunarbann úr gildi yfir manni sem fleygði eignum konu fram af svölum

Birgir Olgeirsson skrifar
Sagði maðurinn þau hafa rifist vegna gruns um að konan hefði haldið framhjá honum, hann reiðst og konan þá yfirgefið íbúðina.
Sagði maðurinn þau hafa rifist vegna gruns um að konan hefði haldið framhjá honum, hann reiðst og konan þá yfirgefið íbúðina. Vísir/GVA/Getty
Hæstiréttur Íslands staðfesti í gæri ákvörðun Héraðsdóms Reykjaness um að fella úr gildi nálgunarbann sem embætti lögreglustjórans á höfuðborgarsvæðinu hafði sett á karlmann.

Lögreglustjórinn taldi ljóst að konunni, sem fór fram á nálgunarbann á manninn, stafi ógn af honum og ljóst sé að hún hafi orðið fyrir ofbeldi af hans hálfu, ógnandi hegðan, áreiti og hann hafi brotið gegn velferð hennar.

Taldi lögreglustjórinn hættu á að maðurinn haldi áfram með ógnandi hegðan, ofbeldi og áreiti að raska friði hennar. Var það mat lögreglustjóra að ekki sé talið sennilegt að friðhelgi konunnar verði vernduð með öðrum og vægari hætti eins og sakir standa.

Flúði til nágranna

Í greinargerð lögreglustjórans kemur fram að lögregla hafi verið kölluð til eftir að nágranni konunnar hafði hringt þann 17. janúar síðastliðinn og upplýst um að konan hefði flúið til nágrannans vegnan ógnandi hegðunar/heimilisofbeldis.

Við skýrslutöku virtist konan hafa nýlega grátið, verið í nokkru uppnámi og skolfið þegar rætt var við hana. Sagðist hún búa í íbúð sinni ásamt tveimur sonum sínum en þeir hefðu ekki verið heima. Hún og maðurinn hefðu verið í sambandi af og til frá febrúar 2014, en ekki búið saman að staðaldri en maðurinn dveldi mikið hjá henni og ætti hjá henni föt og muni.

Sagði konan manninn hafa misst stjórn á sér og kastað til hlutum og skemmt innanstokksmuni í íbúð hennar, meðal annars kastað munum fram af svölum. Hafi maðurinn reynt að henda í hana bjórdós og skál úr máli, en hún hafi ekki slasast en orðið mjög hrædd og maðurinn verið ógnandi. Samkvæmt greinargerð lögreglunnar fór konan út og fékk gistingu hjá fyrrverandi tengdamóður sinni en síðan farið í vinnu um morguninn.

Um hádegi fór hún heim til sín og þá séð muni úr íbúð sinni liggjandi utan við húsið. Konan leitaði til nágranna síns og í kjölfarið hefði verið haft samband við lögreglu. Bað konan lögreglu um að fara í íbúð hennar til að athuga með ástand og fjarlægja manninn úr íbúðinni ef hann væri þar enn.

Drukku áfengi og notuðu amfetamín

Lögreglan fór í íbúð konunnar og handtók manninn. Sagðist hann hafa brjálast þegar konan hafði farið drukkin á bifreið sinni um nóttina. Viðurkenndi maðurinn að hafa hent munum fram af svölum og skemmt. Í greinargerðinni kemur fram að sjáanlega hefðu hlutum verið hent til í íbúðinni, búið að beygla háf í eldhúsi, skemma fartölvu, brjóta styttur, henda fram af svölum gasgrilli og gaskút, skógrind úr málmi, lampa, tré hillu og gler stofuborði. Voru allir þessir munir skemmdir eða ónýtir.

Konan sagði þau hafa drukkið áfengi um nóttina og að þau hefðu notað amfetamín. Sjá hafi mátt tómar áfengisumbúðir í íbúðinni en engin sjáanleg merki um fíkniefnaneyslu. Maðurinn neitaði að hafa kastað bjórdós og skál að konunni en kvaðst hafa verið reiður og orðljótur. Sagði maðurinn þau hafa rifist vegna gruns um að konan hefði haldið framhjá honum, hann reiðst og konan þá yfirgefið íbúðina. Neitaði maðurinn líkamlegu ofbeldi en sagði svipaða uppákomu hafa átt sér stað á heimili hans einu sinni áður. Manninum var gerð grein fyrir því að það hefði komið skýrt fram hjá konunni í samtali við lögreglu að maðurinn væri hér eftir óvelkominn á heimili hennar og að konan óskaði ekki eftir frekari samskiptum við hann. Sagðist maðurinn ætla að virða þessa beiðni brotaþola og ekki setja sig í samband við hana né koma á heimili hennar.

Dómarar töldu gögn ekki styðja nálgunarbann

Í greinargerð lögreglu er vitnað í konuna sem segir manninn hafa hins vegar komið að heimili hennar og hringt í hana í gegnum leyninúmer þrátt fyrir þessi tilmæli.

Héraðsdómur Reykjaness taldi ekki liggja fyrir upplýsingar um meinta líkamsárás eða hótanir mannsins gagnvart konunni. Þá taldi Héraðsdómur Reykjaness engin gögn styðja að maðurinn muni brjóta gegn brotaþola ef nálgunarbanni verði ekki beitt.

Þá segir í úrskurði héraðsdóms að engin gögn styðji meintar hringingar eða að varnaraðili hafi mætt aftur við heimili brotaþola. Með hliðsjón af þessu var kröfu embættis lögreglustjórans á höfuðborgarsvæðinu um staðfestingu nálgunarbanns gegn varnaraðila hafnað af Héraðsdómi Reykjaness og sá úrskurður staðfestur í Hæstarétti í gær.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×