Fótbolti

Félagar Alfreðs sóttu stig á Westfalen

Tómas Þór Þórðarson skrifar
Svissneski markvörðurinn Marwin Hitz er að spila vel fyrir Augsburg.
Svissneski markvörðurinn Marwin Hitz er að spila vel fyrir Augsburg. vísir/getty
Augsburg, lið Alfreðs Finnbogasonar í þýsku 1. deildinni í fótbolta, náði í sterkt stig til Dortmund í kvöld þegar 16. umferð deildarinnar fór af stað.

Ji-Dong Won kom gestunum yfir á 33. mínútu en franska ungstirnið Ousmane Dembélé jafnaði metin á 47. mínútu eftir sendingu frá fyrrverandi United-manninum Shinji Kagawa.

Dortmund gerði mikla orrahríð að marki Augsburg en gestirnir stóðu hana af sér og sigldu góðu stigi í hús. Dortmund-liðið hefur ollið miklum vonbrigðum á tímabilinu eftir að fara mikinn á félagaskiptamarkaðnum en liðið er í fjórða sæti með 27 stig.

Augsburg er áfram í tólfta sæti með 18 stig en liðið er nú búið að vinna tvo leiki í röð og hefur aðeins tapað einum leik af síðustu sjö. Það er búið að vinna þrjá þeirra og gera þrjú jafntefli.

Með Alfreð Finnbogason meiddan er Augsburg ekki að skora mikið en varnarleikur liðsins hefur verið sterkur sem er lykillinn að velgengni Augsburg síðustu vikur.

Augsburg er aðeins búið að fá á sig fjögur mörk síðustu sjö leikjum, aldrei meira en eitt mark í leik, og er búið að halda hreinu þrisvar sinnum á þeim tíma.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×