Viðskipti innlent

Félag sem vill leigja Nubo skuldar tíu milljónir

Stefán Árni Pálsson skrifar
Grímsstaðir á fjöllum Líklegt þykir að ekkert verði úr kaupum sveitarfélaga á jörðinni.
Grímsstaðir á fjöllum Líklegt þykir að ekkert verði úr kaupum sveitarfélaga á jörðinni.
GáF, samstarfsverkefni sveitarfélaga á NA-landi með það markmið að kaupa Grímsstaði á Fjöllum, skuldar um tíu milljónir króna. Engin starfsemi er í félaginu.

Markmið félagsins er að leigja kínverska auðjöfrinum Huang Nubo jörðina. Tvö sveitarfélög, Akureyri og Norðurþing, íhuga stöðu sína í félaginu.

Oddur Helgi Halldórsson, stjórnarmaður í GáF, segir að engin starfsemi sé í félaginu og stjórnarseta í félaginu sé launalaus. Þær skuldir sem félagið býr við í dag séu vegna ákveðinna verkefna sem voru unnin í upphafi.

Kristján Þór Magnússon, sveitarstjóri Norðurþings, telur sveitarfélagið þurfa að kanna stöðu sína í félaginu. „Við verðum að svara þeirri spurningu hvort þetta sé eitt af hlutverkum sveitarfélaga að kaupa jarðir til þess að leigja þær út. Þetta verður skoðað með nýrri stjórn þegar hún tekur við,“ segir Kristján Þór.

Undir þetta tekur Logi Einarsson, oddviti Samfylkingarinnar á Akureyri. „Það er mín skoðun að Akureyri eigi alvarlega að íhuga stöðu sína í þessu tilviki.“ 






Fleiri fréttir

Sjá meira


×