Enski boltinn

Félag sem kaupir leikmann á 8,5 milljarða þarf ekki að halda fleiri tónleika

Tómas Þór Þórðarson skrifar
Það verða bara þrennir tónleikar á hverju ári á Emirates.
Það verða bara þrennir tónleikar á hverju ári á Emirates. vísir/getty
Arsenal fær ekki að tvöfalda tónleikahald á Emirates-vellinum til að auka tekjur sínar, en félagið tapaði dómsmáli þess efnis í dag.

Lundúnafélagið hefur leyfi til að halda þrenna tónleika á ári á heimavelli sínum, en vildi fjölga þeim í sex. Tónleikahald skapar Arsenal fleiri hundruð þúsund pund aukalega í tekjur á ári hverju.

Nágrannar Arsenal eru ekki ánægðir með hávaðann og lætin sem skapast af tónleikum með risa hljómsveitum á borð við Coldplay og Muse sem hafa spilað á Emirates undanfarin ár.

Dómarinn Justice Cranston rökstuddi ákvörðun sína meðal annars með því að segja, að félag sem kaupi leikmann eins og Mesut Özil fyrir 43 milljónir punda eða 8,5 milljarða króna geti ekki kvartað undan fjárskorti.

Í grunninn er þetta þó skipulagsmál og vilja Arsenal-menn meina að mistök hafi verið gerð að hálfu Lundúnaborgar þegar völlurinn var byggður. Hann eigi að vera með leyfi fyrir allavega sex tónleikum á ári.

Svo verður ekki, en Ken Friar, framkvæmdastjóri Arsenal, hélt því fram fyrir dómstólum að Arsenal þyrfti á peningunum að halda til þess að vera samkeppnishæft fjárhagslega í baráttunni við önnur stórlið í Evrópu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×