Innlent

Fékk sögufrægt hálsmen í stúdentsgjöf

Höskuldur Kári Schram skrifar
Biðröð myndaðist í Þjóðminjasafninu í dag þegar fólki var gefinn kostur á að koma með gamla gripi til greiningar. Margir forvitnilegir hlutir komu á borð sérfræðinga safnins þar á meðal hálsmen sem gæti hafa verið í eigu Ingibjargar Einarsdóttur konu Jóns Sigurðssonar forseta.

Þetta var í 16. skipti sem Þjóðminjasafnið býður almenningi að koma með gamla gripi til greiningar. Um 50 manns komu í dag og myndaðist biðröð við borð sérfræðinganna.

„Þetta er svona ýmislegt og af ýmsu tagi. Hlutir sem fólk hefur átt niðri í kössum hjá sér og skúffum og dregur fram. Stundum eru þetta gripir sem fólk veit um en vill að við fáum líka að vita um. Svo líka gripir sem fólk vill fá frekari upplýsingar um,“ segir Þór Magnússon fyrrverandi þjóðminjavörður.

Valgerður Ólafsdóttir kom með gamalt hálsmen sem hún segir að hafi einu sinni verið í eigu Ingibjargar Einarsdóttur konu Jóns Sigurðssonar forseta.

Valgerður fékk menið í stúdentsgjöf frá frænku sinni, Hildi Ingibjörgu Þorsteinsdóttur, sem áður rak verslunina Gluggann í Reykjavík. Hildur fékk menið að gjöf á sínum tíma en Valgerður segir að það hafi verið útaf nafninu Ingibjörg. 

Sérfræðingur Þjóðminjasafnsins telur að hálsmenið sé frá 19. öld en gat ekki staðfest að það hafi áður verið í eigu Ingibjargar Einarsdóttur. 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×