Lífið

Fékk skvísugenið frá ömmu sinni

Ragnheiður Tryggvadóttir skrifar
"Kærastinn minn hafði alltaf sagt að hann gæti ekkert beðið mín, kjóllinn væri týndur, en nú hafði hann enga afsökun lengur.“mynd / úr einkasafni
"Kærastinn minn hafði alltaf sagt að hann gæti ekkert beðið mín, kjóllinn væri týndur, en nú hafði hann enga afsökun lengur.“mynd / úr einkasafni
Emilía Ottesen, kynningarstjóri Bíóhallarinnar á Akranesi, ákvað strax í barnæsku að gifta sig í brúðarkjól ömmu sinnar og nöfnu. Um tíma leit þó ekki út fyrir að sá draumur myndi rætast.

"Amma gifti sig í þessum kjól árið 1967. Ég var alltaf að máta hann þegar ég var lítil og alveg ákveðin í að gifta mig í honum sjálf. Fyrir þremur árum hringdi amma síðan í mig til Hollands, þar sem við kærastinn vorum í námi, og tilkynnti mér það að hún hefði líklega hent kjólnum! Hann hefði farið með gömlum fötum í Rauða krossinn. Þegar ég kom heim ári síðar umturnaði ég fataherberginu hennar ömmu og fann loks kjólinn aftast í litlum kassa. Kærastinn minn hafði alltaf sagt að hann gæti ekkert beðið mín, kjóllinn væri týndur, en nú hafði hann enga afsökun lengur,“ segir Emilía Ottesen hlæjandi en hún og Bjarki Jens G. Scott giftu sig nú í ágúst.

Amma Emilíu Ottesen og nafna gifti sig í kjólnum árið 1967. Emilía mátaði kjólinn oft sem barn og ætlaði sér alltaf að gifta sig í honum sjálf. myndir/úr einkasafni
Kjóllinn smellpassaði en þó þurfti örlítið að breyta honum.

„Amma vildi nú ekki að hver sem er færi að fikta við kjólinn. Ég hafði heyrt svo margt gott af Kristínu Berman, textíl- og búningahönnuði, og fékk hana í verkið. Hún breytti bakinu aðeins og lagaði brjóststykkið og slörið örlítið. Amma var alveg í skýjunum yfir því að ég skyldi gifta mig í honum. Pabbi hennar keypti kjólinn fyrir hana á sínum tíma í Parísartískunni.“

Brúðarkjóll ömmu var eins og sniðinn á Emilíu svo einungis þurfti að gera smávægilegar breytingar.
Nú þegar búið er að nota kjólinn tvisvar í fjölskyldunni er spurning hvort ekki sé búið að skapa ákveðna hefð?

„Það væri auðvitað gaman. En ég dansaði kjólinn eiginlega af mér á ballinu eftir brúðkaupið svo það komu nokkrar saumsprettur. Ég þarf örugglega að fara aftur með hann til Kristínu,“ segir Emilía hlæjandi.

Brúðarkjóllinn er ekki eina flíkin sem Emilía á í fataskápnum af ömmu sinni. „Amma er með svo vandaðan smekk og tímalausan. Hún er mikil tískupæja og mamma hennar var það líka. Það er eitthvert skvísugen í gangi í fjölskyldunni,“ segir Emilía sposk.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×