Erlent

Fékk minnið aftur eftir að hafa verið saknað í 30 ár

Birgir Olgeirsson skrifar
Teiknuð mynd af Edgar Latulip sem var birt í útsendingu CNN og CTV.
Teiknuð mynd af Edgar Latulip sem var birt í útsendingu CNN og CTV. Vísir/CNN
Kanadískur karlmaður fékk óvænt minnið aftur eftir að hafa verið saknað í þrjá áratugi. Bandaríska fréttastofan CNN segir frá máli hins 51 árs gamla Edgar Latulip.

Í janúar síðastliðnum átti hann fund með félagsráðgjafa en þetta átti eftir að reynast örlagaríkur fundur, því á honum mundi þessi maður skyndilega eftir því að hans raunverulega nafn er, Edgar Latulip, og að hann væri frá Kitchener í Kanada.

Þetta leiddi til þess að hann náði að rifja upp hver hann var í raun og veru áður en hann missti minnið árið 1986.

Latulip hafði yfirgefið heimabæ sinn Ktichener það ár með rútu til að sjá Niagara-fossana á landamærum Kanada og Bandaríkjanna. Eftir að hafa virt fyrir sér þessa náttúruperlu ákvað hann að halda til borgarinnar St. Catharines í Ontario-fylki Kanada.

Fékk þungt höfuðhögg

Á leiðinni þangað hrasaði hann og fékk þungt högg á höfuðið sem varð til þess að hann missti minnið.

Úr varð að Latulip dvaldi í St. Catharines næstu þrjátíu árin einn en lögregluyfirvöld hafa verið treg til að veita fjölmiðlum upplýsingar um líf hans þessa þrjá áratugi af virðingu við einkalíf hans.

Lögreglan hafði leitað hans

Þegar Latulip fékk minnið aftur á fundinum með félagsráðgjafanum ákvað félagsráðgjafinn að fletta nafninu hans upp í kerfinu og kom þá í ljós að lögreglan hafði leitað hans á árum áður og hafði bæjarblað í nágrenni við St. Catherines skrifað um mál hans.

Hann var því næst boðaður í yfirheyrslu hjá lögreglu og veitti lífsýni sem var borið saman við ættingja Latulips og staðfesti það að hann var hinn eini sanni Edgar Latulip.

Lögreglan hafði því næst samband við móður hans sem varð afskaplega glöð við að heyra þær fréttir að sonur hennar væri fundinn.

Með andlegan þroska á við 12 ára barn

Kanadíska sjónvarpsstöðin CTV ræddi við móður hans í gegnum síma en hún sagðist hafa talið að sonur hennar hefði verið misnotaður og að einhver hefði notfært sér þroskaskerðingu hans sem gerði það að verkum að hann var með andlegan þroska á við 12 ára gamalt barn.

Er nú lögreglan að skipuleggja endurfundi Latulips við móður hans. 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×