Lífið

Fékk málverk af Ikea-apanum í afmælisgjöf

Gyða Lóa Ólafsdóttir skrifar
Kristín Edda og Kristín eru hér alsælar með málverkið af Ikea-apanum.
Kristín Edda og Kristín eru hér alsælar með málverkið af Ikea-apanum. Vísir/Ernir
Kristín Edda Frímannsdóttir fékk helst til óvenjulegt málverk í afmælisgjöf frá vinkonu sinni og nöfnu, Kristínu Guðmundsdóttur. Kristín málaði mynd af japanska makakí-apanum Carl sem árið 2012 slapp úr bíl eiganda síns sem staddur var í verslunarferð í Ikea í Kanada.

Carl reikaði um verslunina og náðust af honum fjölmargar myndir auk þess sem fréttamiðlar fjölluðu um málið. Eftir það fóru plaköt með myndum af Carl í sölu og var það í kjölfar slíks plakats sem hugmyndin að afmælisgjöfinni kviknaði.

„Þetta var einhver svona einkabrandari hjá okkur, þessi api, og okkur fannst hann svo fyndinn. Svo sáum við plakat af honum í afmæli sem við vorum í,“ segir listamaðurinn og bætir við að Kristín Edda hafi í kjölfarið beðið um mynd af apanum í afmælisgjöf.

Kristín varð við þeirri bón og málaði mynd af Carl en hún stundar nám í Myndlistarskólanum í Reykjavík. „Það var mjög erfitt að gefa hann frá sér að lokum, ég sakna hans alveg svolítið,“ segir hún og hlær. Kristín Edda fékk málverkið að gjöf á veitingastað á afmælisdaginn og er alsæl með gjöfina.

„Hann er svo rosalega vel málaður hjá henni, augun eru alveg fullkomin,“ segir Kristín Edda hlæjandi og bætir við að næsta mál á dagskrá sé að fara með Ikea-apann í innrömmun.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×