Lífið

Fékk kökuboð og typpamyndir á einkamal.is

Bjarki Ármannsson skrifar
Í gervi sínu var Þórarinn einstæð móðir á höfuðborgarsvæðinu.
Í gervi sínu var Þórarinn einstæð móðir á höfuðborgarsvæðinu. Vísir/Stefán/Skjáskot
 „Ég hef svo gaman af netinu, þú veist aldrei hver er á hinum endanum. Þannig að ég bjó til svona ideal stelpu sem graðir karlar myndu vilja kynnast.“

Þetta segir Þórarinn Þórarinsson blaðamaður, sem síðastliðinn vetur stofnaði aðgang á stefnumótasíðunni einkamál.is og þóttist vera einhleyp kona á fertugsaldri. Hann sagði frá reynslu sinni í grein í tímaritinu MAN og í kjölfarið í Síðdegisútvarpi Rásar tvö.

„Mér leiddist nú bara eitt kvöld í febrúar og ákvað í flippi að prufa þetta,“ segir Þórarinn. „Ég gerði mér bara upp feik gmail-aðgang og skráði mig inn á það.“

Full-frontal myndir og kökuboð

Í kvenmannsgervi sínu var Þórarinn 36 ára kona á höfuðborgarsvæðinu sem notaði aðgangsheitið smartgirl78. Í lýsingu skrifar „hún“:

Hress og ákveðin einstæð móðir með háskólapróf. Skollitað, hrokkið, axlarsítt hár, blá augu, DD og í góðu formi. Er ekki að leita að langtímasambandi heldur skemmtilegum félagsskap á djammið, bíó, leikhús, og áhugavert spjall yfir góðum mat og vínum. Reyki ekki og hef engan áhuga á sveittum karlpungum, körlum sem hata konur eða perrum. Ég læt ekki nota mig en er til í að nota réttu mennina.

Að sögn Þórarins létu viðbrögðin ekki á sér standa.

„Þetta var fáránlega fyndið,“ segir hann. „Menn hikuðu ekki við að senda inn „full-frontal“ myndir, bara andlit og sprellinn út. Mjög uppteknir af því hvað þeir væru vel vaxnir niður og hvort ég vildi ekki kynna mér það nánar. Svo var allt frá því að bjóða mér í franska súkkulaðiköku yfir í tveggja blaðsíðna tígulgosafrásagnir af því hvernig átti að gæla við mig og fullnægja mér á allan mögulegan hátt. Ég get kannski ekki sett mig í spor kvenna en ég mér fannst þetta svona frekar subbulegt og fráhrindandi.“

Meirihlutinn vildi vel

Smartgirl78 er ekki sérstaklega virk á síðunni en Þórarinn segist aðeins hafa svarað um tveimur fyrirspurnum. Samt trekkir hún enn að sér áhugasama vonbiðla.

„Skilaboðin skiptu hundruðum,“ segir Þórarinn. „Þetta var eitthvað um 500 síðast þegar ég skoðaði þetta.“

Einkamál.is hefur oft verið á milli tannanna á fólki og nú síðast lét stofnandi Facebook-hópsins Kúrufélagagrúbban þau ummæli falla í Fréttablaðinu að það væri almenn vitneskja að síðan væri „sölusíða fyrir vændi.“ Þórarinn segir hinsvegar að hann hafi aldrei fengið boð um greiðslu fyrir kynlíf og að meirihluti þeirra sem skrifuðu smartgirl78 hafi viljað henni vel.

Prófíll Þórarins stendur enn óhreyfður á síðunni frá því í vetur þó hann sé löngu hættur að sinna honum. En hefur ekki komið til greina að hætta að draga menn á tálar og eyða aðganginum?

„Ég er bara svo latur,“ segir hann. „Ég var eiginlega bara hættur að pæla í þessu.“






Fleiri fréttir

Sjá meira


×