Erlent

Fékk heilablóðfall á baðherberginu og drakk klósettvatn í sjö daga

Kjartan Atli Kjartansson skrifar
Steve Adsley.
Steve Adsley.
Maður frá Kanada hélt sér á lífi í sjö með því að drekka klósettvatn, eftir að hann fékk heilablóðfall á baðherbergi sínu í síðasta mánuði. Maðurinn, sem heitir Steve Adsley, lamaðist á vinstri hlið líkamans og gat ekki komist í síma. Adsley hrópaði á hjálp í sjö daga. Honum tókst að fanga athygli eins nágranna síns sem hringdi á hjálp.

Undanfarinn mánuð hefur Adsley verið á sjúkrahúsi og er hægt og rólega að ná sér eftir heilablóðfallið. Læknar telja að hann muni ná sér að fullu innan skamms.

Vissi ekki hvað var að gerast

Adsley segist ekki hafa vitað hvað var að gerast, þegar hann hné niður inni þann 26. júní. Hann var í miðjum klíðum að hafa sig til fyrir daginn. „Ég féll niður og lá þarna. Ég gat bara ekki staðið upp. Ég gat ekki reynt á líkamann því ég hafði engan mátt,“ segir hann í samtali við kanadíska fjölmiðla.

Adsley byrjaði strax að hrópa á hjálp en enginn heyrði. Hann reyndi að hrópa klukkutímunum saman en ákvað svo að hvíla röddina, spara kraftana og fór að huga að því hvernig hann kæmist af inni á klósettinu.

„Það rann upp fyrir mér að ég þyrfti að drekka eitthvað. Ég losaði nokkrar stykki af klósettinu sem ég gat notað sem drykkjarmál. Ég stakk því ofan í klósettið og drakk,“ útskýrir hann.

Hélt að hann myndi ekki hafa það af

Adsley, sem segist vera bjartsýnn að eðlisfari, var viss um að hann myndi deyja. Eftir þrjá daga var hann farinn að íhuga að gefast upp. „En þó að ég væri viss um að ég kæmist ekki af hélt ég áfram að öskra, að biðja um hjálp.“

Adsley var skipulagður í hrópunum sínum. Hann býr í raðhúsalengju og vissu að hann ætti mesta möguleika á að vekja athygli nágranna sinna þegar þeir voru á ferð fyrir utan hús sín. Adsley ákvað því að spara kraftana fyrir tvær fimmtán mínútna lotur. Hann kallaði á hjálp þegar fólk var að fara í vinnu og þegar það var að koma heim.

„Maður getur bara kallað og öskrað ákveðið lengi. Maður verður of þreyttur til að halda áfram. Ég vissi að ég þyrfti að skipuleggja mig til þess að geta öskrað með sem mestum árangri.“

Nágranninn fann hann

Köllin báru árangur á sjöunda degi, en þá heyrði nágranni Adsley í honum. Það er kona að nafni Diane Young, sem segist afar ánægð að hafa heyrt hróp hans. „Ég er rosalega þakklát að hafa heyrt í honum,“ segir hún og sagðist hafa velt fyrir sér af hverju hún hafði ekki séð Adsley þessa sjö daga sem hann lá á baðherbergisgólfinu.

„Ég hafði ekkert heyrt í honum. Það hefði verið hræðilegt ef ég hefði ekki heyrt köllin og hefði ekki komið að honum. Þetta hefði getað endað illa,“ segir Young sem hringdi í Neyðarlínuna þegar hún sá Adsley.

Læknar telja að Adsley muni ná sér að fullu. Hann hefur verið á spítala síðan hann fannst. Hann þjáðist af vökva- og næringaskorti og gat ekki hreyft á sér vinstri hlið líkamans.

Hann hefur nú hægt og rólega fengið meiri mátt í líkamann og mun brátt verða útskrifaður. „Versta við þetta allt var að geta ekki hreyft sig. Margir halda örugglega að maður geti skriðið í átt að símanum. En ég bara gat það ekki. Ég gat ekki hreyft mig. Ég vissi að síminn minn var í nokkurra metra fjarlægð. En ég komst bara ekki að honum. Þetta var alveg hræðilegt.“

Kanadískir fjölmiðlar tóku einnig viðtal við Melani Adsley, dóttur Steve Adsley. Hún reynir að lýsa samviskubitinu vegna þess að hún hafði ekki samband við pabba sinn: „Mér finnst þetta hræðilegt. Mér líður ömurlega að hafa ekki hringt fyrr, eða farið til hans. Ég hafði ætlað að fara í heimsókn,“ segir hún en hún býr talsvert langt frá föður sínum. Hún býr í borginni Vancouver sem er í um 1500 kílómetra frá Dawson Creek.

Uppfært 15:26

Villa var gerð í þýðingu fréttarinnar sem hefur nú verið leiðrétt. Beðist er velvirðingar á þeim mistökum.

Hér að neðan má sjá sjónvarpsfrétt um sögu Adsley.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×