Innlent

Fékk glas í ennið á djamminu: „Ég fékk blóð í augun og ofan í kok“

Kjartan Atli Kjartansson skrifar
Kristrún fékk skurð á ennið, kúlu og dúndrandi hausverk.
Kristrún fékk skurð á ennið, kúlu og dúndrandi hausverk.
„Ég var bara að dansa við manninn minn þegar ég fæ allt í einu þungt högg og svo varð allt í blóði,“ segir Kristrún Gunnarsdóttir um upplifun sína á skemmtistaðnum Spot í Kópavogi á laugardagskvöld.

Margt var um manninn á staðnum, en þar lék Sálin hans Jóns míns fyrir dansi.

Einhver inni á staðnum virðist hafa kastað glasi yfir dansgólfið og endaði það í enni Kristrúnar. „Ég fékk skurð á ennið. Það lak svoleiðis blóðið úr þessu. Eins og það hafi verið framið morð. Ég fékk blóð í augun og ofan í kok,“ útskýrir hún..

Hún þakkar fyrir að glasið hafi ekki endað neðar. Hún hefði getað stórslasast ef glasið hefði endað í andliti hennar.

Fór á slysavarðstofuna

Kristrún þakkar manninum sínum fyrir skjót viðbrögð „Hann fór með mig þarna að einhverjum bar, stökk á bakvið og náði í handklæði. Einn dyravörðurinn á staðnum kom okkur svo til hjálpar. Hann fór með okkur í bakherbergi og hjálpaði okkur að hægja á blæðingunni. Hann var rosalega hjálpsamur.“

Kristrún þurfti að leita á slyavarðstofuna þar sem gert var að sárum hennar. „Læknunum tókst að líma sárið saman, það þurfti ekki að sauma. Nú er ég bara með kúlu á enninu. Og dúndrandi hausverk. Skurðurinn var ekki stór en hann var mjög djúpur.“

Alveg ömurleg tilfinning

Höggið sem Kristrún fékk var ansi þungt. „Mig grunaði strax að þetta hefði verið glas eða flaska sem einhver kastaði. Þetta var alveg ömurleg tilfinning. Ég sá ekkert fyrir blóði þarna. Mér finnst það hrikalegt að maður geti ekki farið út að skemmta sér án þess að lenda í svona. Að fólki detti í hug að kasta glasi inn í hóp af fólki finnst mér alveg ótrúlegt,“ segir hún.

Kristrún hvetur eigendur skemmtistaða að skipta úr glerglösum yfir í plast. „Það ætti í raun að banna gler inni á öllum skemmtistöðum. Þetta getur auðvitað verið hættulegt þegar einhver kastar svona yfir hóp af fólki.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×