Innlent

Fékk ekki að vera á landinu fram að útskriftardegi

sunna karen sigurþórsdóttir skrifar
Dega-fjölskyldan.
Dega-fjölskyldan. vísir/anton
Flýta þurfti útskrift Joniödu Dega, átján ára albanskrar stúlku í Flensborg, þar sem fjölskyldu hennar verður vísað úr landi á næstu dögum. Jonada, sem hefur verið hér á landi frá því í júlí, útskrifaðist því í gær, en útskriftin átti ekki að fara fram fyrr en 27. maí næstkomandi.

„Það komu allmargir nemendur ásamt stjórn nemendafélagsins og þeim sem hafa látið sig þessi mál varða og voru viðstödd útskriftina hennar í gær,“ segir Þorbjörn Rúnarsson, áfangastjóri í Flensborg, í samtali við Vísi.

Þorbjörn segir mikla samstöðu á meðal starfsmanna og nemenda skólans. Stutt hafi verið vel við bakið á fjölskyldunni, en nemendur hafa meðal annars mótmælt brottvísuninni og safnað undirskriftum fjölskyldunni til stuðnings. Sjálfur birti hann færslu á Facebook, sem vakið hefur mikla athygli, þar sem hann greindi frá útskriftinni. Þar segir hann að Joniada sé afbragðs nemandi með enga einkunn undir níu.

„Hugur Joniödu stefnir í læknanám og helst vildi hún nema í Háskóla Íslands. Það er von okkar að sú ósk hennar megi rætast,“ segir Þorbjörn í færslunni, sem lesa má hér fyrir neðan.

Nokkuð hefur verið fjallað um Dega-fjölskylduna í fjölmiðlum. Hún kom hingað til lands frá Albaníu sumarið 2015. Hjónin eru bæði kennaramenntuð en þau segjast hafa orðið fyrir mismunun og ofsóknum í heimalandi vegna stjórnmálaskoðana.

Þeim var synjað um hæli í október og nú í janúar staðfesti kærunefnd útlendingamála þá ákvörðun Útlendingastofnunar og gerði þeim að yfirgefa landið. Fjölskyldunni verður vísað úr landi í byrjun næstu viku.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×