Lífið

Fékk að kenna á því á Þorrablóti Skagamanna en svaraði fyrir sig á skemmtilegan hátt

Kolbeinn Tumi Daðason skrifar
Ólafur Þór Hauksson héraðssaksóknari ætlaði að kaupa sér hamar í Húsasmiðjunni en vörurnar voru af skornum skammti. Raunar engar.
Ólafur Þór Hauksson héraðssaksóknari ætlaði að kaupa sér hamar í Húsasmiðjunni en vörurnar voru af skornum skammti. Raunar engar.
Segja má að Húsasmiðjan á Akranesi hafi svo sannarlega fengið að kenna á því á árlegu þorrablóti Skagamanna þann 23. janúar síðastliðinn. Í annálnum, árlegu myndbandi þar sem gert er grín að lífinu á Akranesi og íbúum bæjarins, var gert grín að vöruúrvalinu í Húsasmiðjunni en samkvæmt heimildum Vísis er það upplifun fjölmargra bæjarbúa að þeir finni aldrei það sem þá vanti í versluninni.

Bæjarfulltrúar á Skaganum tóku þátt í gríninu.
Annálinn má sjá hér að neðan en þar koma fjölmargir Skagamenn við sögu svo sem bæjarfulltrúarnir Ingibjörg Pálmadóttir, fyrrverandi heilbrigðisráðherra, og Ólafur Adolfsson, fyrrverandi miðvörður gullaldarliðs Skagamanna og um tíma íslenska landsliðsins. Þá kemur Ólafur Þór Hauksson, áður sérstakur saksóknari en nú héraðssaksóknari, við sögu.

Reglulega mætir bæjarbúi í verslun Húsasmiðjunnar sem er tóm vöruskemma. Þar tekur á móti þeim einn starfsmaður sem er alltaf jafnundrandi á því að viðskiptavinurinn óski eftir aðstoð hans. Í hvert skipti getur hann því miður ekki boðið upp á vörurnar sem viðskiptavinurinn hafði hugsað sér að kaupa. Er um að ræða hluti á borð við hamar og málningu.

Fyrsta Húsasmiðjuatriðið má sjá eftir tvær og hálfa mínútu í myndbandinu að neðan. Það næsta á 6:40 mínútur og það þriðja eftir níu mínútur.

Ekki er hægt að segja annað en að Húsasmiðjan hafi húmor fyrir sjálfri sér ef marka má auglýsingu sem birtist í auglýsingablaðinu Póstinum nokkrum dögum eftir þorrablótið. Póstinum er dreift á Vesturlandi.

„Skagamenn athugið! Hamrarnir eru komnir og full búð af vörum, án gríns!“






Fleiri fréttir

Sjá meira


×