Erlent

Fegin að vera laus við Wilders

Guðsteinn Bjarnason skrifar
Frá sjónvarpskappræðunum á sunnudag þar sem Geert Wilders var fjarri góðu gamni.
Frá sjónvarpskappræðunum á sunnudag þar sem Geert Wilders var fjarri góðu gamni. vísir/epa
Kosningabaráttan í Hollandi er komin á fullan skrið, enda þingkosningar í næstu viku, miðvikudaginn 15. mars.

Málefni innflytjenda hafa verið mest áberandi í kosningabaráttunni, einkum vegna þess að Geert Wilders, leiðtogi Frelsisflokksins, notar hvert tækifæri til að vara við útlendingum, einkum þó múslimum sem hann óttast mjög.

Það þóttu því töluverð viðbrigði á sunnudaginn, þegar leiðtogar stjórnmálaflokkanna mættust í sjónvarpskappræðum, að varla var minnst á málefni innflytjenda.

Ástæðan var sú að Wilders var fjarri góðu gamni. Hann ákvað að taka ekki þátt í þessum kappræðum, sagði að sér litist ekkert á þær. Hinir þátttakendurnir virtust reyndar ósköp fegnir. Nú gafst loksins tóm til að ræða önnur málefni í hollenskum stjórnmálum.

Frelsisflokki Wilders hefur lengi gengið mjög vel samkvæmt skoðanakönnunum, verið spáð allt upp í eða jafnvel yfir tuttugu prósentum atkvæða, eða álíka miklu og Frjálslynda flokknum, flokki Marks Rutte forsætisráðherra hefur verið spáð.

Flokkarnir tveir hafa skipst á um að vera í efsta sæti í skoðanakönnunum, þótt Frjálslyndi flokkurinn hafi oftar vinninginn.

Aðrir flokkar hafa þó útilokað samstarf við Frelsisflokkinn, þannig að jafnvel þótt hann fái flest atkvæði eru vart nokkrar líkur á því að hann verði með í ríkisstjórn.

Ótti Wilders við múslima nær sífellt nýjum hæðum. Nú síðast sagðist hann vilja láta banna Kóraninn í Hollandi: „Ég myndi frekar vilja að við værum alls ekki með Kóraninn, rétt eins og við höfum að minnsta kosti gert Mein Kampf útlæga hér í Hollandi,“ sagði hann í viðtali við fréttavefinn Euronews, en Mein Kampf er hin alræmda bók Adolfs Hitlers, Barátta mín.

Fréttin birtist fyrst í Fréttablaðinu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×