Innlent

Feður 85% þolenda í tálmunarmálum

Una Sighvatsdóttir skrifar
Við skilnað eða sambúðarslit er meginreglan sú að foreldrar fari með sameiginlega forsjá barns. Þó eru fjölmörg dæmi þess að annað foreldrið komi í veg fyrir að barnið umgangist hitt foreldrið. Feður eru þolendur í yfirgnæfandi meirihluta slíkra mála.

Guðmundur Steingrímsson þingmaður Bjartrar framtíðar vakti máls á þessu á Alþingi á dögunum og sagðist þá vilja freista þess að fá málið á dagskrá þingsins. Í samtali við fréttastofu segist Guðmundur telja að margir þekki slíkar sorgarsögur.

Ömurlegt dæmi um ofbeldi

„Maður hefur heyrt átakanleg dæmi um feður ekki fá að hitta barnið sitt svo árum skipti og hvað er þetta annað en bara mjög sorglegt og ömurlegt dæmi um ofbeldi? Vissulega eru þetta oft flókin mál en við megum ekki missa sjónar á því grundvallaratriði að hér er verið að brjóta á fólki og ekki síst barninu sem á rétt á því að kynnast foreldri sínu.“





Gunnar Kristinn Þórðarson telur mikilvægt að tálmanir verði skilgreind sem barnaverndarmál.
50 ný tálmunarmál komu inn á borð sýslumannsins á höfuðborgarsvæðinu í fyrra, þar sem krafist var dagsekta vegna tálmunar á umgengni. Átta af málshefjendum voru mæður, en 42 feður, eða 84%. Til meðferðar hjá sama embætti núna eru 29 dagsektarmál vegna tálmana, þar sem karlar eru málshefjendur í 23 tilvikum en konur í 6 tilvikum.

Sýslumannsembættin máttlaus

Gunnar Kristinn Þórðarson stjórnsýslufræðingur og framkvæmdastjóri Samtaka umgengnisforeldra segir að gagnvart þessu standi sýslumannsembættin alveg máttlaus. „Og það er bara ólíðandi ástand.“

Samtök umgengnisforeldra vilja að tálmanir verði skilgreindar sem fobeldi gegn börnum og þar með sem barnaverndarmál. „Það er mikilvægt að það sé skilgreint sem barnaverndarmál, því hingað til hefur það ekki verið þannig að sýslumaður er að ákvarða um umgengni og jafnvel að umgengni eigi ekki að eiga sér stað á grundvelli aðkeypts mats. En við viljum sjá þessi mál alfarið á höndum barnaverndaryfirvalda."

84% þeirra sem leituðu til sýslumannsins á höfuðborgarsvæðinu í fyrra vegna tálmunarmála voru feður.
Evrópuráðið telur úrbóta þörf

Þetta er í samræmi við nýlega ályktun þings Evrópuráðsins um að dómstólar einir eigi að skera úr um aðskilnað foreldris og barns. Evrópuráðsþingið telur úrbóta þörf hjá aðildarríkjunum hvað varðar jafnan rétt foreldra, ekki síst fulla viðurkenningu á hlutverki feðra.

Guðmundur tekur undir og segir að löggjafinn og yfirvöld tipli á tánum í kringum þá staðreynd að foreldrar og börn séu misrétti beitt.

„Við eigum ekki að líða það að feðrum, aðallega, sé aftrað frá því að hitta börnin sín. Það er bara ofbeldi.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×