Sport

Federer í úrslit Wimbledon í tíunda sinn

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Federer fagnar sigrinum í dag.
Federer fagnar sigrinum í dag. Vísir/Getty
Roger Federer mætir Novak Djokovic í draumaúrslitaviðureign í einliðaleik karla á Wimbledon-mótinu í tennis.

Federer er sjöfaldur Wimbledon-meistari og hefur tapað tveimur úrslitaleikjum þar að auki. Hann er því að spila til úrslita á mótinu í tíunda sinn á sínum magnaða ferli á sunnudag.

Federer lagði Skotann Andy Murray að velli í undanúrslitum í dag í þremur settum, 7-5, 7-5 og 6-4. Federer hefur verið magnaður allt mótið og þó svo að Murray hafi barist hetjulega var Svisslendingurinn með undirtökin frá upphafi.

Í öðru setti var Murray nálægt því að snúa leiknum sér í vil. Federer var yfir, 5-4 í settinu og 40-0 í lotunni, þegar Murray náði að koma til baka og vinna lotuna eftir sjö upphækkanir.

Murray náði þó ekki að nýta sér meðbyrinn enda Federer einfaldlega að spila of vel. Sá svissneski vann svo næstu tvær lotur og settið þar með 7-5 sem fyrr segir.

Hann komst svo í 5-4 forystu í þriðja settinu og tryggði sér svo sigurinn með því að vinna uppgjafarlotu af Murray og þar með settið 6-4.

Fyrr í dag hafði Novak Djokovic betur gegn Richard Gasquet í þremur settum og mætast því tveir sterkustu tenniskappar heims um þessar mundir - efstu tveir menn heimslistans - í úrslitaleiknum á sunnudag.

Federer og Bandaríkjamaðurinn Pete Sampras hafa unnið flesta titla á Wimbledon frá upphafi eða sjö talsins. Federer getur því komið sér í sögubækurnar með áttunda titlinum um helgina.


Tengdar fréttir

Djokovic fór örugglega í úrslit

Serbinn Novak Djokovic er kominn í úrslitaleikinn á Wimbledon-mótinu eftir öruggan sigur á Frakkanum Richard Gasquet.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×