Lífið

Febrúarspá Siggu Kling – Vatnsberi: Ert að klára púslið

Elsku hjartans vatnsberinn minn. Þú minnir mig dálítið á gríska goðið Atlas því þú berð þig svo vel sama hvað á gengur.

Í þér blundar mikill tilfinningahiti og þú þarft að hafa mikið frjálsræði og sjálfstæði til þess að tengja hamingjuna.

Þessi mánuður mun skipta miklu máli vegna þess að hann vefur sig í kringum afmælisdaginn þinn.

Það er margt sem mun koma þér á óvart, sumt finnst þér dálítið slæmt en annað ertu hamingjusamur með, þetta er pínulítið eins og hrærigrautur en þú átt eftir að berja í borðið og sýna öðrum í kringum þig að þú hafir vel stjórn á kringumstæðum og sért ekki að gefast upp á neinu sviði.

Þú þarft að bera þig betur en þér líður og með þeim krafti opnast nýir möguleikar.

Þú verður svo feginn þegar líða tekur á febrúar og mars heilsar þér því á þeim tíma verður þú búinn að leysa úr stærstu hnútunum sem eru í kringum þig. Á þeim tíma verður þú búinn að finna róna í hjarta þínu og þú verður fullur sjálfstrausts hvað sem á dynur.

Hafðu það samt í huga að þú átt ekki að gera neina uppreisn heldur að vanda vel svo þú hafir góð tök á hlutunum.

Það er stutt í það að þú upplifir mögnuð augnablik og sjáir að þú ert svo sannarlega á réttri braut.

Þú ert alveg að verða búinn með púslið, það vantar bara eitt! Og ef þú skoðar vel í kringum þig þá ertu með það í hendinni.

Þú ert líka að fara inn í tíma sem býður upp á mikið öryggi og sérstaklega á fjárhagssviðum. Elsku uppreisnargjarni vatnsberinn minn, það er dálítið líkt þér að vilja ganga frá öllu, borga allt og hafa allt á hreinu. En skilaboðin til þín núna eru: Vertu alveg rólegur, það er allt í lagi að skulda smá því þetta á allt eftir að ganga upp!

Með ást og umhyggju, þín Sigga Kling

Frægir vatnsberar: Pacas hans Begga, Geir Sveinsson handknattleiksþjálfari, Halla himintungl, Clark Gable leikari, Sveinbjörg Birna Sveinbjörnsdóttir borgarfulltrúi, Yoko Ono, Bjarni Benediktsson, fjármála- og efnahagsráðherra, Katrín Jakobsdóttir þingkona, Hilmir Snær Guðnason leikari, Rikka sjónvarpskona, María Ólafsdóttir Júróvisjónstjarna, Þóra Arnórsdóttir, ritstjóri Kastljóss, Gunna Dís útvarpskona, Höddi Magg, Andrea Róberts, mannauður.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×