Erlent

FBI plataði þýskan rappara og liðsmann ISIS í „hunangsgildru“

Atli Ísleifsson skrifar
Hinn 39 ára Denis „Deso Dogg” Cuspert var vinsæll rappari í Þýskalandi á fyrsta áratug þessarar aldar.
Hinn 39 ára Denis „Deso Dogg” Cuspert var vinsæll rappari í Þýskalandi á fyrsta áratug þessarar aldar. Vísir/AFP
Bandaríska alríkislögreglan FBI sendi kvennjósnara á sínum snærum til Sýrlands til að ná upplýsingum frá þýskum rappara sem grunaður var um að hafa gengið til liðs við ISIS.

Njósnaranum tókst að komast í náðina hjá manninum og koma upplýsingum til bandarískra yfirvalda um margra mánaða skeið.

Þýska blaðið Bild segir frá því að þýski rapparinn Denis „Deso Dogg” Cuspert hafi verið vinsæll tónlistarmaður á fyrsta áratug þessarar aldar. Smáglæpir hafi mótað uppvaxtarár hans, en eftir að hafa lent í bílslysi hafi hann orðið íslamstrúar og komist í samband við íslamska öfgamenn.

Cuspert hefur nú lifað um tíma í Sýrlandi undir nafninu Abu Talha al-Almani. Eftir að áhugi bandarískra yfirvalda kviknaði var tekin ákvörðun um að reyna að nýta sér veikleika hans fyrir konum, en að sögn á maðurinn þrjú börn með þremur konum. FBI hafi því sent njósnara til Sýrlands til að reyna að hafa upplýsingar af honum.

Í frétt Bild segir að verkefnið hafi verið mjög árangursríkt þar sem Cuspert hafi orðið ástfanginn af njósnaranum og þau gengið að eiga hvort annað. Njósnarinn hafi svo komið upplýsingum til Bandaríkjamanna um margra mánaða skeið og síðar tekist að flýja yfir landamærin til Tyrklands.

Tyrknesk yfirvöld tóku konuna höndum eftir að hún komst yfir landamærin en eftir að hafa útskýrt mál sitt gátu fulltrúar bandarískra yfirvalda komið henni aftur til Bandaríkjanna.

Ekki liggur nákvæmlega fyrir hvaða upplýsingum njósnaranum tókst að koma til bandarískra yfirvalda, en Deso Dogg var í það minnsta komið á lista yfir grunaða hryðjuverkamenn í síðustu viku. Er því búið að frysta eignir mannsins og takmarka ferðafrelsi.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×