Viðskipti innlent

Fátt um svör og FME afboðaði komu sína

Sæunn Gísladóttir skrifar
Frá fundi efnahags- og viðskiptanefndar í morgun.
Frá fundi efnahags- og viðskiptanefndar í morgun. Vísir/GVA
Fjármálaeftirlitið afboðaði komu sína á fund Efnahags- og viðskiptanefndar um sölu á hlut í Arion banka sem fór fram í morgun. Þess í stað mun FME sitja fyrir svörum nefndarinnar á föstudaginn.

„Forstjóri Arion banka og yfirlögfræðingur voru á fundinum. Þau komu á fundinn og upplýstu okkur um þá vinnu sem hefur átt sér stað hjá stjórnendum Arion banka í söluferlinu síðustu mánuðina. Þeir hafa verið að kynna bankann fyrir söluferlið en komu ekki að sölunni sem slíkri," segir Lilja Alfreðsdóttir, þingmaður Framsóknarflokksins og nefndarmaður.

Hún segir að því hafi ekki verið hægt að svara spurningum varðandi eignarhaldið og hvernig menn eru að fara í það.

„Það sem verður áhugavert verður að fá Fjármálaeftirlitið á fundinn núna á föstudaginn þar sem fulltrúar í efnahags- og viðskiptanefnd munu spyrja út í hverjir eru endanlegir eigendur hvort við getum fengið upplýsingar um það. Hvort FME ætli ekki að kortleggja tengda aðila innan hópsins og hvort að þessi tenging virki þá þessi 10 prósent þannig að FME þarf að skoða hæfi þeirra. Einnig munum við spyrja út í kaupin sem slík. Hvaða nýir fjárfestar séu að koma að borðinu."

Fundurinn frestaðist sem fyrr segir um tvo daga. Lilja segir að spurt verði hvort þessir sjóðir séu eftirlitsskyldir aðilar og hverjir hafi eftirlit með þessum sjóðum. „Til að auka traust og tiltrú á íslenskum fjármálamarkaði þarf þetta allt að liggja fyrir," segir Lilja.

Kaup vogunarsjóðanna hafa sætt nokkurri gagnrýni undanfarna daga. Meðal annars vegna tengingar í mútumáli og því að einn af vogunarsjóðunum hafi verið færður niður í ruslflokk af matsfyrirtækinu S&P. Lilja segir að þurfi að spyrja hverjir séu hæfir eigendur af fjármálastofnunum.

„Eitt af því sem er nefnt í því samhengi er gott orðspor. Þetta er ekki gott orðspor þegar þú hefur fengið sektargreiðslu upp á tugi milljarða er varðar mútugreiðslur." 


Tengdar fréttir






Fleiri fréttir

Sjá meira


×