Fótbolti

Fátt um fína drætti hjá íslenskum knattspyrnumönnum á Norðurlöndum

Guðmundur Marinó Ingvarsson skrifar
Hjálmar og félagar unnu stórsigur
Hjálmar og félagar unnu stórsigur vísir/afp
Íslenskir knattspyrnumenn voru eldlínunni í Svíþjóð og Danmörku í dag. Fjögur Íslendingalið léku í sænsku úrvalsdeildinni og þrjú í dönsku deildinni en enginn Íslendingur var á meðal markaskorara.

Fjórðu umferð sænsku úrvalsdeildarinnar lauk með fjórum leikjum í kvöld. Arnór Smárason lék fyrstu 65 mínútur leiksins þegar Helsingborg tapaði 1-0 á útivelli gegn Elfsborg. Kristinn Jónsson lék allan leikinn þegar Brommapojkarna steinlágu 3-0 úti gegn Gefle.

Hjálmar Jónsson lék síðustu 9 mínúturnar þegar Gautaborg lagði Aatvidaberg 5-0. Staðan var 3-0 þegar Hjálmar kom inn á. Halldór Orri Björnsson kom ekkert við sögu þegar Falkenbergs tapaði 3-1 heima fyrir Kalmar.

Í Danmörku lék Ari Freyr Skúlason fyrri hálfleikinn þegar OB tapaði 1-0 heima fyrir Nordsjælland. Theodór Elmar Bjarnason lék allan leikinn fyrir Randers sem gerði 2-2 jafntefli á útivelli gegn Esbjerg og Rúrik Gíslason var í byrjunarliði FC Kaupmannahafnar sem lagði Vestsjælland 1-0 á útivelli.

OB er í 7. sæti deildarinnar með 34 stig. Randers er með stigi minna í 8. sæti en FCK er í þriðja sæti deildarinnar með 45 stig.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×