Sport

Fatlaður rússneskur íþróttamaður féll á lyfjaprófi

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Alexander Zverev fagnar verðlaunum á ÓL í London 2012. Gullverðlaunahafinn Alexey Labzin var til vinstri.
Alexander Zverev fagnar verðlaunum á ÓL í London 2012. Gullverðlaunahafinn Alexey Labzin var til vinstri. Vísir/Getty
Rússneski spretthlauparinn Alexander Zverev, sem vann verðlaun á Ólympíumóti fatlaðra í London 2012 hefur verið dæmdur í níu mánaða bann.

Alexander Zverev féll á lyfjaprófi sem var tekið á íþróttamóti fatlaðra í Berlín í Þýskalandi í júní. Kannabisefni fundu í þvagsýni hans en mótið fór fram 20. júní síðasta sumar.

Allur árangur Alexander Zverev frá þeim tíma hefur verið feldur úr gildi, öll met, allir tímar og öll verðlaun.

Alexander Zverev vann silfur í 400 metra hlaupi í flokki T13 (sjónskertir) á Ólympíumótinu í London 2012 en varð í fjórða sæti í 200 metra hlaupi í sama flokki.

Bann Alexander Zverev verður í gildi frá  6. ágúst 2015 til 5. maí 2016.

Alþjóðafrjálsíþróttasambandið hefur bannað Rússum frá þátttöku í öllum alþjóðlegum mótum eftir upp komst að Rússar hefðu skipulagt svindl á lyfjaprófum.

Þriggja manna nefnd á vegum Alþjóðalyfjaeftirlitsstofnunarinnar, WADA, skilaði af sér 300 blaðsíðna skýrslu um stórfellt lyfjamisferli og svindl hjá rússneskum frjálsíþróttamönnum.

WADA sagði einnig að íþróttamálaráðherra Rússlands hafi gefið beinar skipanir um að svindla á lyfjaprófum svo rússneskir afreksmenn myndu ekki falla.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×