Lífið

Fataskápurinn: Ýr Jóhannsdóttir

Ýr Jóhannsdóttir
Ýr Jóhannsdóttir
„Fatastíllinn minn er yfirleitt frekar litríkur og mikið af mynstrum, en samt frekar praktískur, mér finnst mjög leiðinlegt að vera kalt. Ég versla held ég langflest „second hand“ í t.d. Kolaportinu og Rauðakrossbúðum. Þá safnast líka smá peningur upp til þess að geta keypt sér eitthvað vandað og fínt en ég er mjög veik fyrir Marimekko-úrvalinu í Finnsku búðinni og gleymi mér stundum á uppboðum á eBay á notuðum hönnunarflíkum.“

Peysa sem ég nota rosalega mikið því hún er mjög hlý og þægileg en ég stal henni frá mömmu minni. Mamma var held ég hætt að nota peysuna þegar ég eignaði mér hana, en hún klæddist peysunni þegar hún giftist pabba, svo þessi peysa hefur kannski meira persónulegt gildi en margar aðrar bláar peysur.

Carhartt-jólahúfan, „must have“ fyrir jólin. Carhartt hefur reyndar enn ekki gefið út neina jólalínu svo ég prjónaði þessa jólalegu húfu og saumaði Carhartt-merki á hana.

Peter Jensen-kjóllinn minn sem ég nota reyndar alltof lítið því hann verður alltof fljótt skítugur, en mér finnst hann engu að síður einn fallegasti kjóll sem ég á. Eyrun á kanínunni eru hnýtt aftan við hálsinn sem mér finnst algjör snilldarhugmynd! Ég keypti kjólinn fyrir nokkrum árum í vel falinni „second hand“ tískumerkjabúð í London, þar fjárfesti ég í þó nokkrum gersemum.

Mig hefur dreymt um flík úr „flying tiger“ línunni frá Kenzo en maður finnur eiginlega engar nýjar svoleiðis flíkur til sölu lengur. Ég tapaði mjög mörgum uppboðum á eBay úr „flying tiger“ línunni áður en ég vann svo loksins þennan bol fyrir mjög stuttu og hann er strax í miklu uppáhaldi.

Mars Attacks-peysa sem ég bjó til sjálf fyrr í vetur á sjálfa mig þar sem mig vantaði hlýja peysu til að vera í á leiðinni í skólann. Mars Attacks er ein af mínum uppáhaldsbíómyndum og síðan var líka uppáhaldspeysan sem ég gerði fyrir netbúðina mína í haust með áprjónuðum heila á, svo út kom þessi peysa.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×