Viðskipti innlent

Fasteignum Íbúðalánasjóðs fækkað um helming

Sveinn Arnarsson skrifar
Fjölskyldum sem eru í vanskilum hjá sjóðnum fækkar mjög.
Fjölskyldum sem eru í vanskilum hjá sjóðnum fækkar mjög. vísir/vilhelm
Fasteignum í eigu Íbúðalánasjóðs fækkaði um helming á síðasta ári. Í lok janúar á þessu ári átti Íbúðalánasjóður um 640 íbúðir og hefur frá árinu 2014 selt um þrjú þúsund íbúðir.

„Það hefur gengið mjög vel að losa íbúðir og haft jákvæð áhrif á reksturinn. Þegar við seljum náum við að nýta það fjármagn til að styrkja tekjugrunn sjóðsins,“ segir Hermann Jónasson, forstjóri Íbúða­lánasjóðs. „Við gerum ráð fyrir að þróunin verði með svipuðum hætti í ár og hún var í fyrra. Markmiðið er að fækka enn frekar íbúðum í okkar eigu og auka gæði lánasafnsins með skilvirkum innheimtum,“ bætir Hermann við.

Hermann Jónasson forstjóri Íbúðalánasjóðs
Samhliða velgengni í sölu eigna sjóðsins hefur vanskilum fækkað mjög. Fjöldi heimila í vanskilum í lok janúar 2016 var 1.349 og hefur þeim fækkað um fjörutíu prósent á einu ári. Er það til marks um aukna hagsæld almennings.

„Það hefur haft mjög jákvæð áhrif á rekstur sjóðsins og má þakka skilvirkari innheimtuferlum auk ytri þátta í efnahagslífi þjóðarinnar. Minni vanskil þýða aukin gæði lánasafns okkar og valda betri rekstri,“ segir Hermann.

Erfið staða á fasteignamarkaði hefur ekki haft áhrif á Íbúðalánasjóð á síðustu árum. Skortur á íbúðum á sölu hefur að einhverju leyti hjálpað til við rekstur sjóðsins. „Skortur á húsnæði hefur ekki með beinum hætti haft áhrif á reksturinn nema kannski að því leyti til að möguleikar okkar hafa verið mjög góðir til að selja íbúðir og við höfum á síðustu árum átt auðvelt með að losa eignir úr safni okkar.“

Staða sjóðsins hefur styrkst á síðustu árum og reksturinn er góður. Gæði lánasafnsins hafa aukist á síðustu árum og sala úr eignasafninu skilað sér í betri sjóði.

Fréttin birtist fyrst í Fréttablaðinu






Fleiri fréttir

Sjá meira


×