Viðskipti innlent

Fasteignaviðskipti með nýjar íbúðir einungis 5 prósent

Daníel Freyr Birkisson skrifar
Þegar best lét var sala nýrra íbúða hátt í 40 prósent fasteignaviðskipta, en það var árið 2003.
Þegar best lét var sala nýrra íbúða hátt í 40 prósent fasteignaviðskipta, en það var árið 2003. Vísir/Vilhelm
Í október síðastliðnum voru viðskipti með nýjar íbúðir einungis um 5 prósent af heildarfjölda viðskipta á almennum markaði. Þetta er um helmingur af meðaltali áranna 2002-2017. Íbúðalánasjóður greinir frá þessu á vefsíðu sinni.

Á árunum fyrir hrun, nánar tiltekið árin 2002-2008, voru viðskipti með nýjar íbúðir að meðaltali um 16 prósent af heildarfjölda fasteignaviðskipta á almennum markaði í mánuði hverjum. Markaðurinn með nýjar íbúðir hrundi nánast algjörlega árið 2010 en tók síðan smám saman við sér. Síðan árið 2015 hefur viðskiptum með eldri íbúðir hins vegar fjölgað jafn mikið eða hraðar heldur en viðskiptum með nýjar íbúðir. Þegar best lét náði sala nýrra íbúða hátt í 40 prósent, en það var undir lok árs 2003.

Hér sést þróun sölu nýrra, fullgerðra íbúða árin 2002-2017.Íbúðalánasjóður.
Hátt fermetraverð og ekkert stökk í sölu nýrra eigna

Þar kemur einnig fram að fermetraverð í nýjum íbúðum hafi að meðaltali verið hærra en í eldri íbúðum á hverju ári svo langt aftur sem gögn Íbúðalánasjóðs og Þjóðskrár ná. Munurinn jókst svo um munar árið 2011 og hefur haldist síðan. Munurinn hefur þó minnkað undanfarna mánuði.

Gögn úr sölukerfum fasteignasala benda ekki til þess að nýjum íbúðum í sölu á almennum markaði hafi fjölgað sérstaklega undanfarna mánuði. Mánaðarlegur fjöldi nýrra íbúða sem settar eru í sölu hefur farið heldur minnkandi eftir að hafa vaxið hratt á fyrri hluta ársins. Ásett verð nýrra íbúða hefur farið hækkandi, en hækkunartakturinn er sá sami og er á markaðnum almennt.

Um áramótin síðustu hækkaði ásett verð íbúða mikið á stuttum tíma. Verðið lækkaði síðan í vor, á sama tíma og nýjum íbúðum fjölgaði í sölu. Segir í úttektinni að freistandi sé að álykta sem svo að byggingaraðilar hafi brugðist við verðhækkunum með því að koma nýjum íbúðum hraðar í sölu.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×