Viðskipti innlent

Fasteignaverð hækkar umfram spár

Samúel Karl Ólason skrifar
Vísir/Vilhelm
Fasteignaverð hefur hækkað hratt á síðustu mánuðum og munu hækkanir á árinu líklega verða talsvert meiri en spár gerðu ráð fyrir. Á síðustu tólf mánuðum hefur fasteignaverð á höfuðborgarsvæðinu hækkað um 12,4 prósent. Fjölbýli hefur hækkað um 13,6 prósent og sérbýli um 9,3 prósent.

Þetta kemur fram í nýrri Hagsjá Hagfræðideildar Landsbankans. Þar kemur fram að fasteignaverð hafi hækkað um 2,2 prósent í bæði júní og júlí og að frá áramótum sé hækkunin 8,3 prósent. Á árinu hafði Hagfræðideildin spáð níu prósenta hækkun og því sé ljóst að hún verði nokkuð meiri.

Ennfremur segir að íbúðaverð hafi hækkað langt umfram almennt verðlag og að eigið fé íbúðaeigenda á fasteignum hafi aukist verulega á síðustu árum.

„Raunhækkun íbúðaverðs hefur veruleg síðustu misseri. Vísitala neysluverðs án húsnæðis hafði t.d. einungis hækkað um 0,1% síðustu 12 mánuði í júlí. Það er því ljóst að sé hækkun húsnæðiskostnaðar ekki talin með ríkir nánast fast verðlag hér á landi um þessar mundir. Hækkun raunverðs á fjölbýli hefur verið nær stöðug allt frá árinu 2012. Raunverð sérbýlis hefur sveiflast meira en þar hefur hækkunin verið nokkuð stöðug frá árinu 2014.“

Í Hagsjánni segir að þróunin sé „með allt öðrum hætti nú“ en hún var á árunum fyrir hrun. Þá hafi fasteignaverð hækkað mikið meira en kaupmáttur og aðrar tengdar stærðir. Mun minni munur sé á hækkun fasteignaverðs og kaupmáttar nú miðað við þá.

„Niðurstaðan er því sú að það er, enn sem komið er, ekki ástæða til þess að hafa áhyggjur af því að fasteignabóla sé komin í gang með sama hætti og var á árunum 2004-2006.“






Fleiri fréttir

Sjá meira


×