Innlent

Fasteignagjöld í borginni hafa aukist um rúma þrjá milljarða

Erla Björg Gunnarsdóttir. skrifar
Sjálfstæðisflokkurinn í Reykjavík gagnrýnir að auknar tekjur borgarinnar, í því góðæri sem nú ríkir, séu ekki notaðar til að lækka kostnað húsnæðiseigenda í borginni en gert er ráð fyrir að skatttekjur borgarinnar hækki um sex  millljarða árið 2017.

Flokkurinn leggur til að mynda til að lækka fasteigngaskatt svo fasteignagjöld borgarbúa lækki en á síðustu þremur árum, 2013-2016, hafa fasteignagjöld á íbúðarhúsnæði í borginni aukist um 850 milljónir. Ef horft er á fasteignagjöld í heild, með atvinnuhúsnæði, þá er hækkunin um rúma 3,2 milljarða.

Áslaug Friðriksdóttir, borgarfulltrúi sjálfstæðisflokksins
„Við teljum að borgarbúar eigi að njóta þess að við lækkum þessi gjöld, til að lækka húsnæðiskostnað því hann er að keyra fjölskyldur í kaf,” segir Áslaug Friðriksdóttir, borgarfulltrúi Sjálfstæðisflokksins. 

Áslaug bendir á að meirihlutinn hafi lofað fyrir kosningar að vinna sérstaklega að húsnæðismálum. Til að mynda hafi átt að fjölga félagslegum íbúðum um sex hundruð síðustu sex ár en þeim hafi aðeins fjölgað um 75. 

„Svo höfum við lagt til að borgarstjórn beini til fyrirtækisins sem borgin á næstum alveg ein, Orkuveituna, að lækka orkugjöldin því þau eru auðvitað stór hluti af húsnæðiskostnaðinum,” bætir Áslaug við. 


Tengdar fréttir

Sundmiðar og bílastæðagjöld hækka

Bílastæðagjöld í Reykjavík hækka um að allt að helming og sorphirða um allt að 10,6 prósent í byrjun næsta árs samkvæmt fjárhagsáætlun borgarinnar sem samþykkt var á þriðjudag. Borgarstjóri segir að í flestum tilvikum hækki gjöld í takt við verðbólguspá.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×