Viðskipti innlent

Fasteignafélagið Eik fer á markað í apríl

Jón Hákon Halldórsson skrifar
Á meðal eigna Eikar fasteignafélags er Turninn í Smáralind.
Á meðal eigna Eikar fasteignafélags er Turninn í Smáralind. vísir/vilhelm.
Stjórn Eikar fasteignafélags hefur ákveðið óska eftir skráningu í Kauphöllina að undangengnu hlutafjárútboði. Greint var frá þessu í dag.

Á sama tíma sendi Eik frá sér afkomutilkynningu fyrir síðasta ár. Þar kemur fram að hagnaður félagsins eftir skatta nam 1.336 milljónum króna árið 2014 samanborið við 1.236 milljónir árið á undan, sem er 8% aukning á milli ára. Rekstrartekjur félagsins jukust um 95% á milli ára og námu 3.961 milljónum króna og voru leigutekjur þar af 3.753 milljónir. Rekstrarhagnaður félagsins fyrir matsbreytingu og afskriftir nam 2.877 milljónum króna sem er 107% aukning frá árinu áður.

Á árinu var gengið frá kaupum félagsins á fasteignafélögunum EF1 hf. og Landfestum ehf. sem hefur veruleg áhrif á reksturinn. Með kaupunum stækkaði fasteignasafn Eikar fasteignafélags um 161 þúsund fermetrar.

Fyrirtækjaráðgjöf Arion banka hefur umsjón með söluferli og undirbúningi að skráningu Eikar á markað. Almenningi og stærri fjárfestum verður boðið að kaupa hlutabréf í félaginu í almennu útboði í aðdraganda skráningar sem gert er ráð fyrir að fari fram fyrir lok aprílmánaðar.

Félagið hefur sett sér arðgreiðslustefnu um að greiða árlega út arð sem nemur 35% af handbæru fé frá rekstri hvers árs. Í samræmi við stefnuna mun stjórn félagsins leggja til við aðalfund, sem haldinn verður 21. maí næstkomandi, að greiddur verði út 580 milljóna króna arður til hluthafa á árinu 2015 vegna rekstrarársins 2014. 






Fleiri fréttir

Sjá meira


×