Erlent

Farþegar í hugarangri á Keflavíkurflugvelli

Heimir Már Pétursson skrifar
vísir/gva
Farþegar Turkish Airlines eyddu hluta jólanna óvænt á Íslandi eftir að flugvél þeirra á leið frá Mumbai á Indlandi til Chicago í Bandaríkjunum lenti á Keflavíkurflugvelli á Þorláksmessu.

Farþegarnir voru í fyrstu látnir sitja um borð í flugvélinni í þrjár klukkustundir eftir að lent var án skýringa. En eftir það fengu þeir að fara inn í flugstöðina. Indversk fjölskylda segir á vefsíðunni Mid-Day að skortur á upplýsingum til þeirra sem og ættingja sem biðu þeirra í Chicago hafi valdið þeim miklu hugarangri. Ættingjar í Bandaríkjunum hafi óttast að flugvélinni hefði verið rænt en eftir nokkrar klukkustundir fengu þeir þær upplýsingar að fluginu hefði verið aflýst.

Farþegunum gekk erfiðlega að ná símasambandi við fólkið sitt í Bandaríkjunum og enginn var til svara hjá flugfélaginu. Eftir nokkurra klukkustunda dvöl í flugstöðinni var fólkinu ekið á hótel og flugvélin fór síðan héðan í gær vestur um haf. Seint og um síður gáfu talsmenn flugfélagsins þá skýringu á þessari óvæntu lendingu í Keflavík að farþegi hefði veikst um borð.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×