Viðskipti innlent

Farþegafjöldi Icelandair jókst um 15 prósent

Sæunn Gísladóttir skrifar
Ekki er gert ráð fyrir að sætanýtingin muni aukast í hverjum mánuði árið 2016 líkt og hún gerði á milli áranna 2014 og 2015.
Ekki er gert ráð fyrir að sætanýtingin muni aukast í hverjum mánuði árið 2016 líkt og hún gerði á milli áranna 2014 og 2015. Vísir/Vilhelm
Í janúar nam fjöldi farþega í millilandaflugi Icelandair Group 173 þúsund og jókst um 15 prósent miðað við janúar á síðasta ári.

Framboð í millilandaflugi var aukið um 19 prósent. Sætanýting var 74,2 prósent samanborið við 76,7 prósent í janúar í fyrra. Sætanýting var mjög góð á árinu 2015 og var um met að ræða í öllum mánuðum ársins, segir í tilkynningu. Ekki er gert ráð fyrir að sætanýtingin muni aukast í hverjum mánuði árið 2016 líkt og hún gerði á milli áranna 2014 og 2015. Sætanýtingin nú er sú önnur hæsta frá upphafi í janúar.

Farþegar í innanlands- og Grænlandsflugi voru um 20 þúsund í janúar og fjölgaði um 4 prósent. Framboð í janúar var 1 prósent meira en í janúar á síðasta ári og sætanýting var 69,9 prósent og jókst um 2,5 prósentustig. Seldir blokktímar í leiguflugi voru 29 prósent fleiri en í janúar á síðasta ári. Fraktflutningar jukust um 11 prósent á milli ára. Framboðnum gistinóttum hjá hótelum félagsins fjölgaði um 6 prósent á milli ára. Herbergjanýting var 60,7 prósent og 6,4 prósentustigum lægri en í janúar 2015.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×