Erlent

Farsímar hleraðir á Norðurlöndunum

Ingibjörg Bára Sveinsdóttir skrifar
Fjöldi falskra móðurstöðva hefur fundist á Norðurlöndunum
Fjöldi falskra móðurstöðva hefur fundist á Norðurlöndunum
Umfangsmiklar hleranir á farsímum hafa verið afhjúpaðar í Noregi, Svíþjóð og Finnlandi að undanförnu. Sérfræðingar í Noregi telja að fölsku móðurstöðvarnar sem flytja símtöl úr farsímum við stjórnarráðið og þinghúsið í Ósló, sem dagblaðið Aftenposten hefur afhjúpað, séu á vegum erlendra leyniþjónusta.

Norska leyniþjónustan hefur ekki viljað nefna nein lönd en norskur sérfræðingur hefur áður sagt að mögulega sé um að ræða leyniþjónustur Kína og Rússlands.

Mælingar á vegum Dagens Nyheter í Svíþjóð gefa til kynna að falskar móðurstöðvar séu fyrir utan stjórnarráðið í Stokkhólmi. Tímaritið Ny Teknik greinir frá því að sænska lögreglan noti sjálf falskar móðurstöðvar. Lögregluyfirvöld í Svíþjóð vilja ekki tjá sig um hvort slíkar séu við stjórnarráðið. Samkvæmt frásögn Ny Teknik hefur lögreglan í Svíþjóð notað falskar móðurstöðvar um árabil í baráttunni gegn glæpum.

Upplýsingastjóri finnsku öryggislögreglunnar, Jyri Rantala, segir í viðtali við finnska ríkisútvarpið að erlend ríki kunni að hafa hlerað farsíma í Finnlandi með fölskum móðurstöðvum. Haft er eftir Rantala að njósnir séu daglegt brauð í Finnlandi og að notast sé við ýmiss konar tækni. Hann vill ekki ræða hverjir kunna að vera að verki því að þá afhjúpi hann í leiðinni aðferðir finnsku öryggislögreglunnar.

Rantala hvetur Finna til að vera varkára og tala ekki um viðkvæm eða leynileg mál í farsíma.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×