Fótbolti

Fara tvö og hálft flug í kringum heiminn á einu tímabili

Henry Birgir Gunnarsson skrifar
Leikmenn Luch fagna áður en þeir fara í flug.
Leikmenn Luch fagna áður en þeir fara í flug. vísir/getty

Það er ekkert grín að spila í rússneska boltanum og hvergi í heiminum eru eins löng ferðalög í leik í landskeppni.

Það fékk Luch Energiya að reyna á dögunum er félagið þurfti að ferðast frá Vladivostok til Kalinigrad þar sem liðið mætti FC Baltika.

Það ferðalag er stuttir 7.400 kílómetrar. Þá erum við að tala um aðra leiðina, takk fyrir. Þetta er lengsta mögulega ferðalag milli tveggja félaga í sama landinu.

Ekki er beint flug á milli borganna og leikmenn Luch þurftu því að taka tvö flug hvora leið. Ferðalagið í heild sinni tók því 32 klukkutíma.

Til að bæta gráu ofan á svart þá tapaði Luch leiknum 3-0 og 16 tíma ferðalagið heim var því en erfiðara en ella.

Þegar tímabilinu lýkur verða leikmenn Luch búnir að ferðast meira en 100 þúsund kílómetra.  Þess ber að geta að flugið í kringum heiminn er 40 þúsund kílómetrar. Tímabilið er því tvö og hálft flug í kringum hnöttinn.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×