Viðskipti innlent

Fanta Lemon aftur á markað vegna háværra aðdáenda

Stefán Ó. Jónsson skrifar
"Að því sögðu þá datt ég í Lemon-pottinn á Tene.  #LemonIsl" skrifaði einn stúrinn gosdrykkjaunnandi á faraldsfæri við þessa mynd í liðinni viku.
"Að því sögðu þá datt ég í Lemon-pottinn á Tene. #LemonIsl" skrifaði einn stúrinn gosdrykkjaunnandi á faraldsfæri við þessa mynd í liðinni viku. mynd/henry birgir
Gosdrykkurinn Fanta Lemon verður fáanlegur í sumar þökk sé háværum, og allt að því „aggresívum,“ kröfum gallharðra aðdáenda drykkjarins að sögn Jóns Viðars Stefánssonar markaðsstjóra gosdrykkja hjá Vífilfelli.

Það hefur löngum verið vitað að drykkurinn á sér marga háværa talsmenn hér á landi sem hafa oft þurft að hafa fyrir því að gosið rati í verslanir.

Til að mynda fóru gosdrykkjaunnendur í herferð á netinu í upphafi árs 2009 fyrir því að framleiðsla Fanta Lemon yrði hafin á nýju og á þriðja þúsund manns skrifaði undir áskorun þess efnis á Facebook. Hafði drykkurinn þá verið illfáanlegur frá aldamótum.

Varð það til þess að Vífillfell féllst á kröfur þeirra og hóf sölu á Fanta Lemon að nýju en drykkurinn hefur verið fáanlegur í nokkra mánuði yfir hásumarið á síðustu árum.

Því var þó ekki að skipta í fyrra þegar Vífilfell brá út af vananum og hóf framleiðslu á Fanta Zero síðastliðið sumar. Árið 2013 áður bauð fyrirtækið upp á Fanta með apríkósubragði og segir Jón að Vífilfell hafi leitast við að prófa nýjar tegundir af drykknum á undanförnum árum enda séu til fjölda mörg afbrigði af drykknum erlendis.

Landsliðsmarkmaðurinn Gunnleifur Gunnleifsson blandaði sér í umræðuna um endurkomu Fanta Lemon, enda grjótharður aðdáandi.mynd/twitter
Fyrirtækið hafi þó ekki ákveðið að ráðast í neina tilraunamennsku í ár, fara aftur „back to basics“ eins og markaðsstjórinn kemst að orði, ekki síst vegna háværrar kröfu aðdáenda Fanta Lemon á samfélagsmiðlum í síðustu viku

„Þetta fór mikið á flug á Twitter fyrir helgi en hafði verið aðeins í gangi fyrr í sumar. Við rákumst á þetta þá en þetta var ekki með jafn aggresívum hætti og í síðustu viku og þá fórum við að skoða þetta af fullri alvöru að gera þetta, að bregðast við og svara kallinu“ segir Jón Viðar.

Jón segir að gosþyrstir ættu fljótlega að geta nælt sér í flösku í næstu verslun, drykkurinn sé við það að detta í verslanir. 

Aðdáendur Fanta Lemon geta þó ekki setið að sumbli endalaust, drykkurinn verður einungis í boði tímabundið og gerir Jón Viðar ráð fyrir að hann verði alfarið horfinn úr verslunum í lok ágúst. 

Hér að neðan má sjá umfjöllun fréttastofu Stöðvar 2 af því þegar tekið var að framleiða Fanta Lemon að nýju í maí árið 2009.


Tengdar fréttir






Fleiri fréttir

Sjá meira


×