Erlent

Fannst nakin í skógi eftir að hafa verið týnd í mánuð

Samúel Karl Ólason skrifar
Bróðir Lisu, Will, deildi mynd af henni á Facebook á dögunum og sagði hana vera sterkustu manneskju sem hann þekkti. Jafnvel eftir að hafa haldið til í óbyggðum í 28 daga.
Bróðir Lisu, Will, deildi mynd af henni á Facebook á dögunum og sagði hana vera sterkustu manneskju sem hann þekkti. Jafnvel eftir að hafa haldið til í óbyggðum í 28 daga. Vísir/Getty/Facebook
Hin 25 ára gamla Lisa Theris fannst nakin í skógi í Alabama um helgina, en hún týndist fyrir um mánuði síðan. Theris hafði lifað á berjum og vatni úr lækjum áður en hún komst að afskekktum vegi og fannst þar. Lögreglan segir fjölmörgum spurningum ósvarað um hvað kom fyrir Theris.

Judy Garner fann Theris og sagði hún NBC News sögu sína. Hún segir Theris hafa verið lafandi hrædda og hún hafi verið þakin í bitum og sárum. Þá grátbað hún Garner um að yfirgefa sig ekki áður en sjúkraflutningamenn komu á vettvang.

„Ég er ekki viss um að hún hefði getað þraukað mikið lengur,“ sagði Garner.

Lögreglan segir það ekki vera á hreinu hvernig Theris endaði út í óbyggðum. Hins vegar hafa tveir menn verið handteknir fyrir að brjótast inn í veiðibúðir á svæðinu og þeir eru sagðir tengjast hvarfi hennar.

Þeir sögðu lögreglu að hún hefði verið með þeim í bíl, en hún hafi hoppað út um miðja nótt, þann 18. júlí, þegar hún komst að því að þær ætluðu sér að fremja innbrot.

Lögreglan sagði WTVY í gærkvöldi að rannsóknin stæði enn yfir og von væri á frekari upplýsingum.

Frétt NBC Bullock sýsla í Alabama



Fleiri fréttir

Sjá meira


×