Erlent

Fannst í 140 metra fjarlægð eftir tvær vikur á flótta

Stefán Ó. Jónsson skrifar
Strokuskjaldbakan Aboo komst ekki mjög langt á flóttanum.
Strokuskjaldbakan Aboo komst ekki mjög langt á flóttanum. SHIBUKAWA
Risaskjaldbaka sem hafði verið á flótta úr dýragarði einum í Japan í rúmar tvær vikur er fundin - 140 metrum frá garðinum. Skjaldbakan, sem ber heitið Aboo, stakk af úr Shibukawa-garðinum þann 1. ágúst og var ríkulegum fundarlaunum heitið hverjum þeim sem myndi hafa uppi á henni.

Það var svo í dag sem tveir feðgar fundu skjaldbökuna heila á húfi í runna rúmlega 100 metrum frá staðnum sem hún hafði sést síðast. Þeir eiga vona á peningaverðlaunum sem nema um 500 þúsund íslenskum krónum og kortum í garðinn sem gilda ævilangt.

Starfsmenn garðsins segja í samtali við fjölmiðla ytra að þeim sé mjög létt eftir að Aboo komst loksins í leitirnar og lofa þeir því að passa betur upp á dýrin í framtíðinni.

Aboo kom í dýragarðinn árið 2004 og hefur síðan þá fengið að ferðast óhindrað um hann allan. Að sögn starfsmanna garðsins hefur hún aldrei áður gert tilraun til að stinga af.

Skjaldbakan hefur lengi verið eitt vinsælasta dýrið í garðinum og hefur fengið „nóg að borða í dag“ svo hún taki ekki aftur upp á því að leita ævintýra annars staðar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×