Innlent

Fannst beinbrotinn og með höfuðáverka á Hornströndum

Atli Ísleifsson skrifar
Björgunarsveitir frá Hnífsdal, Bolungarvík og Ísafirði þurftu að sigla inn í botn Hestfjarðar.
Björgunarsveitir frá Hnífsdal, Bolungarvík og Ísafirði þurftu að sigla inn í botn Hestfjarðar. Vísir/Vilhelm
Þyrla Landhelgisgæslunnar flutti göngumann frá gönguleiðinni milli Hesteyrar og Hlöðuvíkur á Hornströndum og til Reykjavíkur fyrr í kvöld. Fyrr um daginn hafði borist tilkynning um töluvert illa slasaðan göngumann og voru björgunarsveitir frá Hnífsdal, Bolungarvík og Ísafirði upphaflega kallaðar út. Um var að ræða erlendan ferðamann sem var einn á ferð.

Að sögn Halldórs Óla Hjálmarssonar, í svæðisstjórn björgunarsveita á Vestfjörðum, segir að maðurinn hafi verið beinbrotinn, handleggsbrotinn, með höfuðáverka og snúinn á ökkla. „Að öllum líkindum hefur hann skrikað fótur á snjóskafli á gönguleiðinni og dottið niður. Það eru töluverðar fannir enn í fjöllum fyrir norðan.“

Björgunarsveitarfólk þurfti að flytja manninn nokkurn spöl, en þyrlan gat ekki lent á þeim stað sem maðurinn fannst. „Það var mikil gæfa að hópurinn kom að honum. Töluverð traffík er þarna fyrir norðan, en það var mikið lán að hann var þetta nálægt slóðinni,“ segir Halldór Óli, en hópur göngumanna kom að honum meðvitundarlitlum og illa höldnum.

Um 25 björgunarsveitarmenn sinntu útkallinu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×