Sport

Fanney vann silfur og setti Norðurlandamet

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Fanney Hauksdóttir lenti í 2. sæti og setti Norðurlandamet í -63 kg. flokki á HM í bekkpressu í Danmörku.

Fanney keppti í opnum aldursflokki en hún var yngsti keppandinn í -63 kg.

Í fyrstu lyftu bætti Fanney eigið Íslandsmet um fimm kg. Hún lyfti 152,5 kg. og setti þar með Norðurlandmet og tryggði sér sæti á verðlaunapalli. Fanneyju mistókst tvívegis að lyfta 155 kg.

Fanney endaði í 2. sæti á eftir hinni reynslumiklu Gunda Fiona Sommer von Bachhaus frá Þýskalandi sem setti heimsmet með því að lyfta 184 kg.

Viktor Samúelsson keppti í -120 kg. flokki unglinga og vann til silfurverðlauna. Viktor byrjaði á því að lyfta 285 kg. en sú lyfta var dæmd ógild vegna tæknivillu.

Hann lyfti 290 kg. í næstu tilraun en mistókst svo að lyfta 317,5 kg.

Viktor Ben Gestsson var lang yngsti keppandinn í +120 kg flokki. Hann reyndi við bætingu á Íslandsmeti í opnum aldursflokki með 295 kg í fyrstu tilraun, en fékk hana ekki gilda. Í annarri tilraun tókst honum að klára lyftuna og setti þar með Íslandsmet í opnum aldursflokki.

Viktor Ben missti naumlega af silfrinu þegar John Caruso (USA), sem var léttari en Viktor Ben, tók einnig 295 kg. Fyrir mótið átti Viktor Ben best 270 kg. og var því bæta sinn persónulega árangur um heil 25 kg.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×