Fótbolti

Fanndís: Hefðum átt að vera svolítið í „fuck it“ gírnum

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Fanndís Friðriksdóttir eftir leikinn í kvöld.
Fanndís Friðriksdóttir eftir leikinn í kvöld. Vísir/Getty
Fanndís Friðriksdóttir skoraði eina mark íslenska liðsins í Evrópukeppninni en hún var ekki á skotskónum í dag, ekki frekar en félagar hennar í íslenska liðinu og stelpurnar steinlágu 3-0 á móti Austurríki í lokaleiknum.

„Mér líður ömurlega. Við ætluðum okkur að gera þetta betur en við gerðum. Fyrir fólkið sem kom að horfa á okkur,  fyrir ykkur sem eru búnir að fjalla frábærlega um okkur og fyrir okkur sjálfar,“ sagði Fanndís í viðtali við Tómas Þór Þórðarson eftir leikinn.

„Við fengum á okkur tvö frekar skítamörk og við náðum ekki að rífa okkur upp eftir það,“ sagði Fanndís.

Landsliðsþjálfarinn Freyr Alexandersson talaði um að æfing liðsins í gær hafi verið ein sú lélegasta sem hann hafi séð.

„Mér fannst við vera tilbúnar í leikinn og við vorum kannski ekki upp á okkar besta á þessari æfingu í gær en það á ekki þannig að skipta máli hvernig æfingin er,“ sagði Fanndís sem fannst liðið hefði þurft að sýna meiri töffaraskap í leiknum í kvöld.

„Við hefðum átt að vera miklu meiri töffarar, vera svolítið í „fuck it“ gírnum og gera þetta sem við erum góðar í. Svo var þetta bara erfitt i dag. Það kom okkur samt ekkert á óvart sem þær voru að gera. Við vorum búnar að fara yfir þetta allt saman. Við náðum okkur bara ekki á strik,“ sagði Fanndís

„Við munum reyna að taka það með okkur sem við gerðum vel í þessu móti og byggja ofan á það. Það er stutt á milli í þessu. Frakkaleikurinn hefði getað farið 0-0. Við verðum bara að skilja það eftir sem var illa gert og taka það góða með okkur áfram,“ sagði Fanndís að lokum.


Tengdar fréttir

Sif: Mér finnst við ekki hafa setið eftir

Sif Atladóttir, miðvörður íslenska liðsins, gaf að venju allt sitt í leikinn en gat ekki komið í veg fyrir 3-0 tap á móti Austurríki í lokaleik íslenska liðsins á EM í Hollandi.

Freyr: Liðið höndlaði vonbrigðin eftir laugardaginn mjög illa

Freyr Alexandersson, þjálfari íslenska kvennalandsliðsins í fótbolta, var afar ósáttur með frammistöðuna í 0-3 tapinu fyrir Austurríki í kvöld. Þetta var síðasti leikur Íslands á EM en liðið tapaði öllum þremur leikjum sínum á mótinu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×