Sport

Fannar rennir blint í sjóinn hjá Hagen

Tómas Þór Þórðarson skrifar
Fannar Þór Friðgeirsson færir sig um set.
Fannar Þór Friðgeirsson færir sig um set. Vísir/Getty
Fannar Þór Friðgeirsson, atvinnumaður í handbolta, gekk í gær frá samningi við þýska B-deildarliðið Eintracht Hagen sem verður nýliði í deildinni í vetur. Fannar hefur spilað undanfarin tvö ár með Grosswallstadt en það félag fór í greiðslustöðvun á dögunum og þarf að byrja upp á nýtt í C-deildinni.

„Staðan er þannig hjá mér núna að ég á von á mínu fyrsta barni með konunni minni í ágúst. Gjaldþrotið kom auðvitað á slæmum tíma þar sem 70-80 prósent af liðunum í efstu og næstefstu deild eru búin að ganga frá sínum leikmannamálum. Það voru lið sem spurðust fyrir um mig en þau höfðu minni peninga milli handanna,“ segir Fannar Þór við Fréttablaðið.

Hagen hefur fengið tvo liðsfélaga Fannars frá Grosswallstadt til sín og fleiri ágæta leikmenn, en liðið ætlar sér stærri hluti á næstu árum en bara að berjast fyrir sæti sínu í B-deild.

„Þetta er alveg óskrifað blað fyrir mig. Ég veit bara að félagið hefur fengið góða leikmenn og kynnti fyrir mér framtíðarplanið sem hljómaði vel. Ég er með svipaðan samning og hjá Grosswallstadt þannig að ég er bara sáttur,“ segir Fannar Þór.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×